Glæsilegir garðar og óléttar konur

Við í Kópavogi eigum glæsileg útivistarsvæði eins og Kópavogsdal, Fossvogsdal, Rútstún, Hlíðargarð, Listatúnið, Kópavogstúnið og Guðmundarlund.  Við eigum möguleika á að gera þessi svæði enn meira aðlaðandi með litlum tilkostnaði,með enn betri umhirðu. Þá er ég tala um reglulegan slátt og að illgresi sé haldið niðri með góðri ummhirðu. 

Jafnframt þurfum við að bæta í og tryggja aðgengi að góðum svæðum þegar við erum að þétta byggð. Það er ekki nóg að setja flotta stoppistöð til að fólk geti farið úr hverfinu. Það þarf að tryggja að aðlaðandi svæði sé til staðar inni í hverfinu. Rútstún er líklega best nýtta útivistarsvæðið okkar og það kemur til af því að á veturna er brekkan þar full af börnum að leik á snjóþotum. Á sumrin eru þar grasflatir og leiktæki sem eru mjög vinsæl og mikið notuð. Þetta getum við miðað við og það þarf ekki langar brekkur eða mörg leiktæki til að útivistarsvæðið geti verið aðlaðandi. 

Í starfi mínu á íþróttavöllum bæjarins hef ég séð stóraukinn áhuga  á að stunda líkamsrækt á vel hirtum grassvæðum. Auðvitað hafði Covid þar mikil áhrif þar sem líkamsrækt innanhús hafði verið lokuð. En það breytir því ekki að ásókn í að stunda æfingar úti á góðum svæðum hefur aukist síðustu ár.  

Það situr enn í mér að hafa þurft að vísa 9 barnshafandi konum með ung börn í meðgönguleikfimi af nýsánum púttvelli á illa slegið Kópavogstúnið. Það þarf lítið til að bæta um betur með aukinni umhirðu á þessi svæði okkar sem ég nefndi hér að ofan, þau eru opin og vel til þess fallin að auka gæðastundir fjölskyldunnar. Ég lofa því að fá ég til þess brautargengi ætla ég að bæta þessi litlu atriði sem samt skipta svo miklu máli.

Ómar Stefánsson
Í 4. sæti í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins
omarstef.net

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar