Skólastarf eftir heimsfaraldur

Kópavogur er ekki bara góður staður að búa á, heldur viljum við að Kópavogur sé barnvænn staður. Staður þar sem börnin okkar eru örugg, geta stundað nám, og notið lífsins.
Menntastarf er grunnurinn að samfélagi okkar og mikilvægt að vel sé að því staðið.
Undanfarin tvö ár hefur verið gífurlegt álag á skólastjórnendur og kennara vegna Covid-19 faraldursins. Á þeirra borði lenti að skipuleggja sóttvarnarhólf, og allt utanumhald sem snéri að faraldrinum innan skólans, ofan á þegar of hlaðinn verkefnastafla sem snýr að menntun barnanna okkar.
Mikilvægt að auka stuðning við skólastarf

Þetta hefur verið einstaklega erfiður tími bæði fyrir börnin, kennarana og skólastjórnendur. Það er mikil þörf að koma þar inn með aukinn stuðning. Kennarar, nemendur og annað starfsfólk skólanna er orðið langþreytt eftir 2. ára baráttu við heimsfaraldur. Það er því gríðarlega mikilvægt að sveitarfélagið taki utan um skólana núna þegar vorið er á næsta leiti og hlúi að þeim.
Skólinn er griðastaður margra barna sem búa við erfið skilyrði og því mikilvægt að skólinn sé í stakk búinn til að sinna þeim verkefnum sem á þeirra borði lenda. Skólinn þarf að mæta mörgum mismunandi einstaklingum.

Á íslandi er skóli á aðgreiningar, sem er mikilvæg og falleg hugmyndafræði. Það er mikilvægt að allir fái sömu tækifæri og því þarf að mæta hverjum og einum sem einstaklingi. Þetta er því stórt verkefni fyrir skólana. Það er því mikilvægt að bærinn hafi skilning og getu til að styðja þar við. Annars er hætt við að skólinn virki ekki sem skildi.

Kennarar þurfa aukinn stuðning inn í kennsluna til að mæta mismunandi þörfum barnanna. Það er mikil breidd í starfi skólans og áríðandi að þar komi inn þeir sérfræðingar sem skólinn þarf á að halda ásamt sérkennslu rýmum þar sem þörf er á því. Þannig skapast aukin slagkraftur í skólastarfinu sem skilar betri nemendum á næsta skólastig.

Ég er sjálfur kennaramenntaður og sonur handmenntakennara sem kenndi í yfir 45 ár. Ég ber gífurlega virðingu fyrir starfi kennara og veit að deginum er oft ekki lokið þegar heim er komið, vegna fjölda verkefna sem eru á borðum kennara.

Það er mikilvægt að bæta starfsumhverfi kennara með auknum stuðningi, og þá um leið bætum við umhverfi barnanna okkar sem eyða stórum hluta af deginum innan skólans.

Höfundur býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi 12. mars nk.

Bergur Þorri Benjamínsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar