Gættu hversu hratt þú ekur! Hámarkshraði í 57 götum í Kópavogi lækkaður

Hámarkshraða á götum í Kópavogi hefur verið breytt þannig að umferðarhraði tekur mið af umhverfi og virkni gatna. Þá er það haft að markmiði að draga úr líkum á slysum.

Breytingarnar eru í samræmi við hámarkshraðaáætlun sem unnin var á grundvelli umferðarmælinga og slysaskráninga síðustu ára og draga mið af aðstæðum á hverjum stað. Einnig var horft til hámarks- hraðaáætlunar Reykjavíkurborgar til að gæta að samræmi í umferðarskipulagi á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta þýðir í reynd breytingar á hámarkshraða í 57 götum.

Sjá hér yfirlit yfir götuhraða í Kópavogi fyrir og eftir breytingar.

Húsagötur 30 km/klst. Húsagötur eiga fyrst og fremst að veita aðgang að húsum og starfsemi við viðkomandi götu, þar verður hámarkshraði að öllu jöfnu ekki hærri en 30 km/klst.

Safngötur 40 km/klst. Safngötur sem eru helstu umferðargötur innan hvers hverfis og tengja húsagötur við tengi- og stofnbrautir, þar verður hámarkshraði að öllu jöfnu ekki hærri en 40 km/klst.

Tengibrautir 40 km/klst. Tengibrautir tengja einstaka bæjarhluta við stofnbrautakerfið og nálæga bæjarhluta saman innbyrðis og eru helstu umferðargötur í hverjum bæjarhluta, þar verður hámarkshraði að öllu jöfnu ekki hærri en 40 km/klst.

Stofnbrautir 50 km/klst. Stofnbrautir eru aðalumferðarbrautir í þéttbýli og tengjast stofnvegakerfi utan þéttbýlis, þar verður hámarkshraði að öllu jöfnu ekki hærri en 50 km/klst.

Vinna við að skipta út skiltum þar sem þess er þörf er ekki hafin en stefnt er á að hefja hana eftir páska. Þá verður máluðum merkingum á götum einnig breytt í vor og sumar.

Hraðasektir

Þá má minna ökumenn á að þegar keyrt er 10km yfir hámarkshraða þá er sektargreiðslan 10.000 kr. Greiðslan hækkar síðan um 20.000 kr. við hverja 10km hámarkshraða sem bætist við þannig ef t.d. er keyrt á 60 km hraða þar sem hámarkshraði er 40km þá er sektin 30.000 kr.

Einnig er gott að minna ökumenn á að ef þeir nota farsíma eða snjalltæki án handfrjáls búnaðar við akstur þá er sektin 40.000 kr.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar