Á fundi bæjarráðs þann 1. febrúar var lagt fram erindi frá Reykjavíkurborg þar sem tilkynnt er úrsögn Reykjavíkurborgar úr Reykjanesfólkvangi.
Umsögn til bæjarráðs vegna úrsagnar Reykjavíkurborgar úr Reykjanesfólkvangi.
,,Reykjanesfólkvangur er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Kópavogsbær á ekki land innan Reykjanesfólkvangs en mörk hans liggja að Bláfjallafólkvangi sem er þjóðlenda innan sveitarfélagsmarka Kópavogs.
Tilurð Reykjanesfólkvangs má rekja til tillögu Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Seltjarnarness, Hafnarfjarðarbæjar, Keflavíkur, Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps til Umhverfissofnunar um að stofna fólkvang á Reykjanesskaga. Fólkvangurinn var stofnaður með auglýsingu nr. 520/1975 í B. deild stjórnartíðinda. Skipuð var samvinnunefnd sveitarfélaganna sem fer með stjórn fólkvangsins. Nefndin er skipuð einum fulltrúa frá hverjum aðila.
Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað á fundi sínum þann 6. desember sl. að segja upp samstarfssamningi vegna reksturs Reykjanesfólkvangs. Ástæður sem gefnar eru fyrir uppsögninni eru m.a að umboð og hlutverk stjórnar fólkvangsins þykir óljóst en Umhverfisstofnun hefur en ekki gert stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn sem stofnaður var árið 1975. Reykjavíkuborg á hvorki land innan fólkvangsins eða aðliggjandi að honum. Að auki sé stór hluti fólkvangsins á landi íslenska ríkisins, en fólkvangar séu fyrst og fremst hugsaðir sem friðlýst útivistarsvæði fyrir íbúa sveitarfélaga á svæðum þeirra. Þrátt fyrir stóra eignarhluta ríkisins hafi rekstur fólkvangsins verið kostaður af sveitarfélögunum.
Framlag Kópavogsbæjar til reksturs Reykjanesfólkvangs var árið 2023 kr. 1.251.911. Ekki hefur verið gefinn út reikningur vegna ársins 2024 en í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir kostnaði upp á kr. 1.631.550.
Reykjavíkurborg tilkynnti aðildarsveitarfélögum fólkvangsins bréflega um þessa ákvörðun þann 23. janúar sl. Sveitarfélagið Vogar hefur einnig tekið ákvörðun um að segja sig úr samstarfinu.
Kópavogsbær á ekki land innan Reykjanes fólkvangs en tekur þátt í kostnaði við rekstur hans þrátt fyrir að landsvæðið sé að mestu í eigu ríkisins og innan staðarmarka annarra sveitarfélaga. Umhverfisstofnun hefur, þrátt yfir ítrekanir stjórnar, ekki gert stjórnunar- og verndunaráætlun líkt og þeim ber að gera fyrir friðlýst svæði. Með hliðsjón af framangreindu er það tillaga undirritaðrar að Kópavogsbær fylgi fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá samstarfinu um Reykjanesfólkvang,“ segir í umsögn frá Ásu A. Kristjánsdóttur, bæjarlögmanni Kópavogsbæjar sem var lögð fram í bæjarráði Kópavogs í síðustu viku.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum sl. þriðjudag úrsögn Kópavogsbæjar úr Reykjanesfólkvangi.