Í lok síðustu viku fór fram verðlaunaafhending í undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar, Greindu betur, en keppnin er á vegum Hagstofu Íslands.
Þar gerði Sjálandsskóli sér lítið fyrir og varð í tveimur efstu sætunum í yngri flokknum, en Goðar, með verkefnið Tekjur á Íslandi, var í fyrsta sæti og í öðru sæti var liðið Ernirnir, einnig frá Sjálandsskóla, með verkefnið Greining á ferðamennsku hér á landi.
Keppnin er þverfaglegt tilraunaverkefni sem ætlað er að veita unglingum á aldrinum 14 til 18 ára tækifæri til þess að efla hæfni sína í því að nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt og getu sína til þess að taka upplýstar ákvarðanir.
Tryggðu sér þátttökurétt í Evrópsku tölfræðikeppninni
Í liði Goðar voru Þorkell Gauti H Dungal, Matthías Þór Ólafsson og Róbert Kári Jónsson, nemendur í 10. bekk. Þeir hafa þar með tryggt sér þátttökurétt í Evrópsku tölfræðikeppninni.
Í öðru sæti var liðið Ernirnir frá Sjálandsskóla með verkefnið Greining á ferðamennsku hér á landi. Í því liði voru Egill Dofri Agnarsson og Birkir Snær Ólafsson, einnig nemendur í 10. bekk.
Keppni á landsvísu og árangurinn frábær
Liðsstjóri liðanna var Arngerður Jónsdóttir, náttúrufræðikennari unglingadeildar Sjálandsskóla. ,,Þetta er frábær árangur hjá þessum nemendum í unglingadeild Sjálandsskóla, að ná fyrsta og öðru sæti, sérstaklega þar sem þetta er keppni á landsvísu. Þeir eru sér og skólanum til mikils sóma og erum við mjög stolt af þeim,” segir Arngerður.
Forsíðumynd: Siguvegarar! F.v. Birkir Snær Ólafsson, Egill Dofri Agnarsson, Matthías Þór Ólafsson, Róbert Kári Jónsson, Arngerður Jónsdóttir, liðsstjóri og Þorkell Gauti H. Dungal