Eldgosið í augum barnanna

Listsýning á Náttúrufræðistofu Kópavogs sen lýkur á alþjóðlega umhverfisdeginum þann 5. júní.

Þessa dagana stendur sýningin Eldgosið í augum barnanna yfir á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Sýningin er hluti af yfirstandandi Barnamenningarhátíð í Kópavogi og á henni gefur að líta listaverk sem börnin á Bóli og Læk, elstu tveimur deildum leikskólans Álfatúns, unnu að nú í vor undir stjórn deildarstjóra sinna, þeirra Guðrúnar Viktoríu Skjaldardóttur og Jórunnar Örnu Þórsdóttur.

Eldgosaspjall á Náttúrufræðistofunni með börnunum á Álfatúni

Verkefnið er innblásið af eldgosinu í Geldingadölum á Reykjanesskaga. Gosið hófst þann 19. mars s.l. og kveikti samstundis sama áhuga og blik í augum barnanna á Álfatúni og landsmanna allra. Börnin fylgdust af spenningi með beinu streymi frá gosstöðvunum og miklar eldgosaumræður, sem kennarar hvöttu enn frekar til með fjölbreyttri fræðslu, spunnust.

Í kjölfarið unnu börnin listaverk tengd eldgosinu þar sem náttúrulegur efniviður á borð við ull, jarðleir, sand, við og mosa var í forgrunni. Deildarstjórar á Álfatúni sátu nýverið spennandi námskeið um skapandi starf með börnum og nýttu hugmyndir og aðferðir þaðan sem grunn fyrir listsköpunina. Börnin á Bóli (4 – 5 ára) unnu eldfjallaskúlptúra úr jarðleir sem þau síðan máluðu og felldu inn í sitt eigið náttúrulega landslag meðan börnin á Læk (5 – 6 ára) sköpuðu fjölbreytt ullarverk sem þæfð voru á upprúlluðum bambusmottum.

Sýningar- og fræðsluheimsóknir

Að sjálfsögðu var börnunum á Álfatúni og kennurum þeirra svo boðið í heimsóknir á Náttúrufræðistofuna að sjá sýninguna sína og taka þátt í skemmtilegu eldgosaspjalli. Stoltið leyndi sér ekki hjá ungu listamönnunum sem höfðu frá mörgu spennandi að segja og ófá gullkornin sem féllu.

Sýningunni lýkur á alþjóðlega umhverfisdeginum þann 5. júní.

Alþjóðlegi umhverfisdagurinn

Þema alþjóðlega umhverfisdagsins í ár er endurheimt vistkerfa, auk þess sem árið í ár markar upphaf áratugar sem tileinkaður er endurheimt vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum. Af þessu tilefni má á sýningunni Eldgosið í augum barnanna einnig finna valda fróðleiksmola um eldgos; ógnir þeirra jafnt sem mikilvægi fyrir líf og vistkerfi á jörðinni, auk bergmola úr steinasafni Náttúrufræðistofu Kópavogs frá nokkrum nýlegum íslenskum eldgosum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar