Hugsum stærra, gerum meira og gerum betur

eftir Jón Gunnarsson

Því miður heyrist það viðhorf stundum hjá sumu fólki á öllum aldri að það skipti engu máli hverjir fari með stjórn landsins eða í sveitarfélögunum, það sé sami rassinn undir öllu þessu liði. Engin ástæða sé jafnvel til þess að drattast á kjörstað, þetta verði allt óbreytt eftir kosningar hvort eð er. En er það þannig? Skiptir virkilega engu máli hver heldur um stjórnartaumana?

Reynslan sýnir okkur að það skiptir miklu máli og þá er ég ekki að tala um fjarlæga fortíð, heldur nútímann. Auðvelt er að bera saman stöðu fjármála í sveitarfélögunum hér í Kraganum við ástandið í Reykjavík. Á meðan bæjarstjórnirnar í Kraganum reka bæjarsjóði af ábyrgð, skynsemi og með jákvæðri niðurstöðu við erfiðar aðstæður þessi misserin, en halda um leið uppi fullri þjónustu við bæjarbúa, þá er fjárhagur stærsta sveitarfélagsins á svæðinu – Reykjavíkurborgar – rjúkandi rúst. Og það gerist þrátt fyrir að borgin sé langstærsta sveitarfélagið og með alla skattstofna fullnýtta.

Og hver skyldi nú vera galdurinn á bak við þetta? Jú, hann er einfaldur, sveitarfélögunum í Kraganum er stýrt af sjálfstæðismönnum, en Reykjavík lýtur forsjá vinstri flokkanna með Viðreisnarhækjuna sér til stuðnings.

Samgönguvandi í boði borgarinnar

Við sem búum í nágrenni borgarinnar þekkjum umferðarteppurnar sem fyrst og fremst eru heimatilbúinn vandi, vegna þess að Reykjavíkurborg sinnir ekki þeim skyldum sínum að greiða fyrir umferðinni. Öll þekkjum við tafirnar á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðarvegar, tafir sem kosta óheyrilegar fjáræðir vegna vinnutaps.

En þó umferð gangi á margan hátt greiðlega hér á svæðinu, þá þekkjum við nokkra staði þar sem hraða þarf framkvæmdum til þess að greiða okkur leið og auka jafnframt umferðaröryggi allra vegfarenda. Um þessar mundir eiga sér stað miklar framkvæmdir í samgöngumálum, ekki síst í nágrenni höfuðborgarinnar. Ýmsar þeirra eru verkefni sem ég barðist fyrir að kæmu til framkvæmda þegar ég gegndi embætti samgönguráðherra árið 2017. En fyrirliggjandi framkvæmdaáætlanir munu ekki standast eins og skrifað var upp á í Samgöngusáttmálanum 2019, m.a. vegna þess m.a. að leiðsögn skortir hjá ríkinu á sama tíma og Reykjavíkurborg er látin komast upp með það að tefja lykilframkvæmdir. Þar á ég t.d. við mislægu gatnamótin á Reykjanesbraut við Bústaðaveg sem áttu að koma til framkævmda á þessu ári.

Mér finnst sorglegt að þetta skuli látið viðgangast á meðan brýn lykilverkefni hér í Kraganum fá ekki jafn skjótan framgang og nauðsynlegt væri. Þar er ég m.a. að tala um Arnarnesveginn sem átti að klárast á þessu ári með mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut, en Reykjavíkurborg er látin komast upp með að tefja. Ekki síður er brýnt að hraða bráðnauðsynlegum framkvæmdum í Garðabæ, en þar er búið að setja áform um stokk á Hafnarfjarðarvegi um Garðabæ á framkvæmdaáætlun áranna 2028 – 2030, en þessi framkvæmd er mjög mikilvæg. Og í Hafnarfirði er ekki síður aðkallandi að taka fyrr til hendinni en hugmyndir eru uppi um. Þar er ég með í huga algjöra lykilframkvæmd á Reykjanesbraut, þ.e. við Lækjargötu og Álftanesveg, Kaplakrika. Þetta vekefni á að teygja yfir árin 2024 til 2028. Framkvæmdir í Hafnarfirði eiga skv. þessu ekki að hefjast fyrr en í lok næsta kjörtímabils og í Garðabæ í lok þar næsta kjörtímabils. Það er óásættanlegt.

Þótt sumt sé gagnrýnisvert í þessum málaflokki, þá er það vissulega þannig ýmsu má fagna. Þannig var sl. vetur lokið tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ sem greiðir mjög fyrir umferð á þeim kafla. Hins vegar á enn eftir að ljúka breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi sem er þekkt slysagildra. Óhjákvæmilegt er að nefna Sundabraut í þessu samhengi, en mikilvægi hennar er óumdeilt fyrir samgöngur á milli vestasta hluta Suðvesturkjördæmis, Mosfellsbæjar og Kjósar, að ekki sé talað um nauðsyn þess að létta á umferð í gegnum Mosfellsbæ og greiða um leið fyrir henni vestur á land. En við þekkjum því miður viðhorf Reykjavíkur til Sundabrautar, en í tíð núverandi borgaryfirvalda hafa ýmsir steinar verið lagðir í götu verkefnisins. Sú sorgarsaga er efni í aðra blaðagrein.

Mér hefur oft fundist – og ég er alls ekki einn um það – að við framkvæmdir á vegum hins opinbera ríki of oft skammsýni og að unnt sé að hraða framkvæmdum og nýta fjármuni betur en gert er, með fyrirhyggju sem síðan leiðir til sparnaðar. Það hefur margoft komið í ljós að með því að hugsa stærra, gera meira og gera betur má ná fram aukinni hagkvæmni vegna stærðar og umfangs. Það mun, þegar upp verður staðið, geta sparað okkur milljarða í samgönguframkvæmdum. Þann ávinning mætti síðan nota í önnur verkefni, eða skattalækkana sem ekki er vanþörf á.

Höfundur óskar eftir stuðningi í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum dagana 10. – 12. júní.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar