Lýðheilsa, útivist og náttúruvernd

Lýðheilsuaðgerðir miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga, og þjóðarinnar í heild með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu. Hið opinbera á að skapa fólki aðstæður í samfélaginu sem auðvelda því að stunda heilbrigða lífshætti og efla vitund fólks og vitneskju um mikilvægi þess. Fáir deila um mikilvægi þess að íslenska ríkið greiði niður skuldir, það sparar vaxtagreiðslur til framtíðar. Svipað er hægt að segja um fjármuni sem varið er til aukinnar heilsueflingar til að bæta lýðheilsu. Slíkt sparar í útgjöldum til heilbrigðismála til lengri tíma.

Garðabær hefur staðið sig einstaklega vel í að viðhalda og varðveita útivistarvæði bæði innan byggðar og í upplandi bæjarins, friðlýsingar á um 40% af landi bæjarins tryggir rétt komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru. Ósnortin náttúra er takmörkuð auðlind. Rannsóknir sýna að gott aðgengi að útivist og fallegu umhverfi er metið sem ómetanleg lífsgæði og eykur hamingju íbúa. Það eykur lýðheilsu og sparar fjármunni til framtíðar í heilbrigðisþjónustu.

Áfengi og lýðheilsa

Áfengi er ekki venjuleg neysluvara, neysla áfengis er ekki góð heilsu og ofneysla áfengis og annara vímuefna er ein af okkar stærstu heilsufarsógnum. EN samt kýs stór hluti fullorðinna einstaklinga að njóta áfengis og hófleg áfengisneysla er almennt ekki talin skaðleg. Þess vegna er áfengi lögleg vara sem seld er mjög víða. Fjöldi veitingastaða, kaffihúsa og vegasjoppa sem reknar eru af einkaaðilum hafa leyfi til að selja áfengi, en þó aðeins í glasi. Alls ekki í lokaðri flösku sem fólk getur tekið með sér heim. Áfengi í flösku má bara kaupa í til þess gerðum verslunum sem reknar eru af hinu opinbera. Ekki hefur enn skapast meirihluti fyrir því á Alþingi að breyta þessum lögum. Á meðan svo er finnst mér allavega ástæða til þess að ríkisfyrirtæki ÁTVR sé ekki einráða um hvar þeir opna vínbúðir. Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp þess efnis að sveitarfélögin hafi aðkomu að staðarvali áfengisverslana. Sveitarfélögin hafa jú skipulagsvaldið og leggja flest upp úr því að hafa góða miðbæjarkjarna þar sem íbúar geti nálgast vöru og þjónustu í göngufæri. Sveitarfélagið Garðabær kvartaði ítrekað við ÁTVR þegar þeir ákváðu einhliða að loka verslun sinni í miðbæ Garðabæjar. ÁTVR ákvað svo að opna verslun í Garðabæ en þá í Kauptúni en ekki í miðbænum þrátt fyrir skýrar óskir sveitarfélagsins þar um, þessu þarf að breyta.

Í haust eru kosningar þar sem við fáum tækifæri til að kjósa fólk á þing. Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn. Það hefur sýnt sig í Garðabæ og það hefur sýnt sig í landsmálunum að Sjálfstæðisflokkurinn er best til þess fallinn að vera í meirihluta. Ég mun leggja mitt af mörkum til að svo verði, en til þess þarf ég þinn stuðning.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks og frambjóðandi í 2. sæti í komandi prófkjöri.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar