Bregða sér í gervi fjölskrúðugra dýra

ÞYKJÓ – Ævintýraheimur á Bókasafni Kópavogs í allt sumar

Á aðalsafni Bókasafns Kópavogs eru staðarlistamenn Menningarhúsanna í Kópavogi árið 2021 búnir að setja upp hluta af þverfaglega hönnunarverkefninu ÞYKJÓ í fjölnotasalnum á 1. hæð. Um ræðir listakonurnar Sigríði Sunnu Reynisdóttur, Ninnu Þórarinsdóttur, Erlu Ólafsdóttur og Sigurbjörgu Stefánsdóttur. Þær hafa tekið höndum saman og búið til heim þar sem fullorðnir og börn geta stigið inn í töfraveröld og brugðið sér í gervi fjölskrúðugra dýra. Dýrin eru ævintýraverur, innblásnar af eiginleikum dýra héðan og þaðan. Passa búningarnir börnum á ólíkum aldursskeiðum. Verða búningarnir til staðar í allt sumar, búningar sem má taka niður af veggjum, klæða sig í og fara í leik. Er þetta kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur að koma við á aðalsafni í Hamraborg, prófa búninga, kíkja í barnadeildina í leiðinni og taka þátt í sumarlestri. Verið velkomin á bókasafnið í sumar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar