Lestur er minn sprengikraftur

Sumarlestur, lestrarátak Bókasafns Garðabæjar, hófst 29.maí en þá las Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur um Fíusól við góðar undirtektir áheyrenda. Sumarlestur stendur yfir til 21.ágúst og hægt er að skrá sig í allt sumar í bókasafninu Garðatorgi 7 og Álftanessafni og leyfilegt er að lesa hvað sem er.

Sumarlestur er lestrarhvetjandi átak

Sumarlestur er lestrarhvetjandi átak fyrir öll börn á grunnskólaaldri, ekki síst þau sem eru að læra að lesa og er áhugasömum yngri börnum einnig velkomið að taka þátt. Markmiðið er að hvetja til lesturs í sumarfríi skólanna því ef börn lesa lítið sem ekkert yfir sumartímann er hætt við að þau verði fyrir “sumaráhrifum” og sýna kannanir að þriggja mánaða afturför getur þá orðið á lestrarfærni þeirra.

Þegar börnin skrá sig til þátttöku fá þau afhenta lestrardagbók. Í hana skrá þau þær bækur sem þau lesa, fá svo límmiða á bókasafninu og bókahraunmola fyrir hverja lesna bók sem þau merkja með nafninu sínu og hengja upp hjá sumarlestrar eldfjallinu. Í sumar er nefnilega eldgosaþema og er ætlunin að búa til stórt bókahraun á vegginn á bókasafninu því börnin í Garðabæ munu að sjálfsögðu verða dugleg að lesa og að taka þátt í Sumarlestri!

Þátttakendur geta fyllt út umsagnarmiða um hverja lesna bók og sett í lukkukassa sem dregið er úr á föstudögum kl.12, 11.júní – 13.ágúst, og fær lestrarhestur vikunnar bók í verðlaun. Fjölbreyttar föndursmiðjur fyrir börn verða í boði þessa föstudaga kl.10-12. Börnin eru hvött til að setja sér lestrarmarkmið fyrir sumarið og að standa við þau og er mælt með að lágmarki 15 mínútna lestri á dag og fimm bókum yfir sumarið. Á lokahátíðinni, 21.ágúst, fá allir virkir þátttakendur glaðning og þrír lestrarhestar verða dregnir úr umsagnarmiðum sumarsins.

Mikilvægt að ungir lesendur hafi gott aðgengi að spennandi lesefni

Mikilvægt er að virkja lestraráhuga ungra lesenda, að lestur verði eftirsóknarverður valkostur, að þeir hafi gott aðgengi að spennandi lesefni og fái tækifæri til að segja frá og ræða efnið og gegnir fjölskyldan þar stóru hlutverki. Á bókasafninu er að finna fjölbreyttan bókakost fyrir allan aldur og úrval léttlestrarbóka sem henta vel í Sumarlestur, en börn og ungmenni fá frítt bókasafnsskírteini til 18 ára aldurs. Munum að lestur er íþrótt hugans og að æfingin skapar meistarann. Lesum saman í sumar, allt, alltaf, alls staðar. Lestur er minn sprengikraftur!

Rósa Þóra Magnúsdóttir
Verkefnastjóri barna- og ungmennastarfs
Bókasafn Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar