Áskoranir og ný tækifæri

Streymisviðburðir slógu í gegn í Menningarhúsnum

Það kann að hljóma mótsagnakennt en þrátt fyrir að gestum hafi fækkað um 42% vegna Covid 19 þá hafa aldrei jafnmargir notið viðburða Menningarhúsanna í Kópavogi líkt og árið 2020. 
Þetta kemur fram í nýrri viðamikilli skýrslu um stöðu menningarmála í Kópavogi. Í skýrslunni er rakin starfsemi menningarmála í Kópavogi á árinu auk þess sem hún hefur að geyma markmið málaflokksins fyrir árið 2021. Eins og við var að búast þá hafði COVID-19 faraldurinn veruleg áhrif á menningarstarfsemi bæjarins. Annars vegar þurfti að loka Menningarhúsunum nokkrar vikur af árinu vegna samkomubanns og hins vegar þurfti að draga verulega úr starfseminni vegna fjöldatakmarkana og sóttvarnaraðgerða. Þá bættust við lokanir vegna kjaradeilna og verkfalla. 

Kórónuveirufaraldurinn og verkföllin drógu þó ekki kjark úr starfsfólki Menningarhúsanna í Kópavogi sem leitaði nýrra og skapandi leiða til að miðla menningarviðburðum. Meðal annars með streymisútsendingum og viðburðum utandyra.

42% fækkun gesta en aldrei jafn margir notið viðburða í Menningarhúsunum

Gestum Menningarhúsanna fækkaði talsvert á milli ára sem skrifa má á COVID-19. Árið 2020 heimsóttu 162.290 gestir húsin sem er 42% fækkun á milli ára. Einnig voru helmingi færri viðburðir í húsunum og þ.a.l. helmingi færri viðburðagestir en 2019. Þrátt fyrir fækkun gesta í húsin og á viðburði á milli ára hafa aldrei jafnmargir notið þeirrar fjölbreyttu menningardagskrár sem boðið var upp eins og á árinu 2020. Þetta helgast af því að reglubundnar útsendingar frá menningarviðburðum eins og Kúltúr klukkan 13 slógu í gegn en þar stigu á stokk margir af fremstu lista- og fræðimönnum þjóðarinnar. Áhorfendur sem sáu streymisútsendingar á árinu voru þannig 245.536 á móti 162.290 gestum sem sóttu húsin heim. Þessi staðreynd opnar sannarlega á nýja nálgun í miðlun menningarviðburða sem horft verður til í framtíðinni, þó upplifunin verði aldrei sú sama og að vera á staðnum. 

Menningarhúsin í Kópavogi eru vel sótt, bæði hvað varðar heimsóknir í venjulegu árferði og svo hafa streymisviðburðirnir slegið í gegn í kórónuveiruástandinu

Alþjóðlega samstarfsverkefnið Vatnsdropinn sem hófst árið 2019 þróaðist og dafnaði árið 2020. Nú standa að samstarfinu auk Kópavogsbæjar, Múmínálfasafnið í Tampere, H.C. Andersen safnið í Óðinsvéum og Ilons Wonderland safnið í Hapsalu í Eistlandi. Styrkir hafa tryggt að verkefnið geti staðið fram á árið 2023. Árið 2020 hlaut Vatnsdropinn hæsta styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands, alls 6,5 milljónir króna. 

Ársskýrsla menningarmála telur 80 blaðsíður. Þar er fjallað um menningarstefnu, hlutverk og leiðarljós málaflokksins, stefnumörkun, styrkveitingar, auk greiningar á fjármálum og mannauðsmálum. Í samantektinni er gerð ítarleg úttekt á hlutverki, framtíðarsýn og markmiðum þeirra fimm Menningarhúsa sem undir málaflokkinn heyra, en það eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Salurinn. Þar eru einnig kynntar lykiltölur málaflokksins og húsanna frá árinu 2020 og áætlanir fyrir árið 2021. 
 

Skilur eftir sig tækifæri og úrlausnir

Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, segir af þessu tilefni: „Þrátt fyrir að fáir horfi á bak ársins 2020 með trega sökum hins hörmulega heimsfaraldurs Covid-19 skilur það eftir sig tækifæri og úrlausnir sem við hefðum ella farið á mis við. Mikill drifkraftur og metnaður einkenndi menningarstarfið í Kópavogi , enda starfar þar frábær og samstilltur hópur sem tókst á við áskoranir ársins 2020 með einstakri útsjónarsemi og skapandi lausnum, hvort sem það var á staðnum eða í netheimum”.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar