Verðum að sýna Stjörnuhjartað

Undanúrslit Powerade-bikarsins í handbolta fer fram í kvöld, fimmtudaginn 16. mars, en í síðari leik undaúrslitanna tekur karlalið Stjörnunnar á móti Aftureldingu í Laugardalshöll kl. 20:15.

Það má búast við hörkuleik enda er Stjarnan í 4. sæti Olísdeildarinnar og Afturelding í því fimmta. Það sem meira er og sýnir ef til vill hversu jöfn liðin eru að Stjarnan hefur skorað 534 mörk í 18 leikjum en Afturelding einu meira, eða 535 mörk í 18 leikjum. Stjarnan hefur svo fengið á sig 509 mörk en Afturelding tveimur minna, eða 507 mörk. Ótrúlegt!

Eins og mönnum er enn í fersku minni lagði Stjarnan ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Vals að velli í 8-lið úrslitum í frábærum leik, en Valur hefur sýnt mikla yfirburði í Olísdeildinni í vetur og því var sigur Stjörnunnar mjög öflugur.

Garðapósturinn sló á þráðinn til Patreks Jóhannessonar þjálfara Stjörnunnar og spurði hann hvernig stemmningin væri innan herbúða Stjörnunnar fyrir leikinn? ,,Undirbúningur hefur gengið vel og er allir leikmenn ásamt þjálfarateymi eru spenntir að mæta í Laugardalshöllina,” segir Patti.

Og hvernig er staðan á mannskapnum, allir heilir og tilbúnir í leikinn?
,,Það eru nokkrir leikmenn sem hafa verið að glíma við smá meiðsli, en við sjáum til hvort þeir verði ekki klárir í leikinn í kvöld.”

Þið lögðuð mjög öflugt lið Vals í 8-liða úrslitinum, hefur sá sá frábæri sigur einhverja þýðingu fyrir komandi bikarleik? ,,Við unnum FH í 16 liða úrslitum, Val í 8 liða úrslitum sem segir okkur að við getum spilað góðan handbolta en það hjálpar okkur ekki neitt í næsta leik. Sá leikur byrjar 0-0 og verðum við að vera klárir frá fyrstu mínútu, vera með gott leikplan og sýna Stjörnuhjarta.”

,,Það er bara eitt lið sem vinnur og það er klárt mál að það lið sem stendur uppi sem sigurvegari þarf að ná því allra besta fram varðandi handboltann ásamt því að vera andlega sterkir,” segir Patti fyrir leik kvöldsins

Þessi tvö lið, Stjarnan og Afturelding, virðast vera ótrúlega jöfn miðað við stöðuna í deildinni og tölfræðina. Þú vilt kannski ekki fara yfir ykkar helstu áherslu í leiknum en hvað ber helst að varast í leik Aftureldingar? ,,Ég fór yfir það á súpufundi í Stjörnuheimilinu í gær, miðvikudag, með leikmönnum og látum það duga að svo stöddu,” segir hann brosandi.

Þið töpuðu fyrir þeim í Olísdeildinni í byrjun desember með þremur mörkum í TM höllinni í Garðabæ þar sem Blær Hinriksson, skoraði 10 mörk, þetta er klárlega leikmaður sem þarf að stöðva ásamt Árna Braga Eyjólfssyni? ,,Þeir eru klárlega lykilmenn og verðum við að mæta þeim almennilega. Það eru margir aðrir góðir leikmenn í UMFA og hafa þeir töluverða breidd svo það eru ekki bara þessir tveir sem þarf að stoppa.”

Það hefur verið hlé á Olísdeildinni vegna landsleikja þannig að þið hafið haft góðan tíma til að undirbúa þennan leik, jafnvel of langan eða hvað – hafið þið nýtt tímann vel? ,,Fínn tími, ekkert of langur eða stuttur. Við erum búnir að æfa vel og hlökkum til að mæta í Höllina.”

Sigurliðið kemst í úrslitaleikinn næst komandi laugardag, þetta er því stór leikur og gulrótin er sannarlega til staðar ef menn vinna – andlegi þátturinn hlýtur að skipta einhverju máli í þessum leik og sjálfsagt meira en í venjulegum deildarleik? ,,Það er bara eitt lið sem vinnur og það er klárt mál aðþað lið sem stendur uppi sem sigurvegari þarf að ná því allra besta fram varðandi handboltann ásamt því að vera andlega sterkir.”

Leikurinn er kl. 20:15 í kvöld, hvernig verður þessi dagur hjá þjálfaranum, frá morgni fram að kvöldi? ,,Eins og aðrir fimmtudagar, vinna í Stjörnuheimili, æfing í Hress hjá Lindu og Nonna, vinna aftur og svo að mæta í Laugardalshöll.”

En hvað með liðið og strákana? ,,Við erum alltaf með tvo videofundi fyrir hvern leik í deild, verður sama fyrir-komulag hjá okkur. Leikmenn hafa hist í hádegi á leikdegi þegar við höfum spilað í Olís deildinni, geri ráð fyrir því að menn mæti á Spíruna í Garðheimum og fá sér alvöru orku fyrir átökin um kvöldið.”

Og þetta er skemmtilegir leikir enda mikið undir eins fram hefur komið hér á undan og þá skiptir stuðningurinn miklu máli? ,,Mfl. kk hefur ekki unnið bikarinn síðan 2007 eða í 16 ár sem er langur tími. Ég var þá leikmaður og man vel hvað það skipti miklu máli að fá alvöru stuðning frá okkar fólki í Stjörnunni. Það gefur leikmönnum kraft og til þess að vinna UMFA og fara alla leið þá þurfum við stuðning ásamt því að hafa gott leikplan,” segir Patrekur að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar