Bókasafnið fagnar 70 ára afmæli í dag

Bókasafn Kópavogs fagnar 70 ára afmæli þann 15. mars næstkomandi. Gestir mega búast við skemmtilegum uppákomum og viðburðum í anda bókasafnsins bæði í aðdraganda afmælisdagsins og á afmælisdeginum sjálfum. Lísa Zachrison Valdimarsdóttir er forstöðumaður Bókasafns Kópavogs.

„Starfsfólk Bókasafns Kópavogs hefur ávallt lagt mikla áherslu á persónulega og góða þjónustu við gesti þess og er mikið lagt upp úr því að bjóða fjölbreyttan og vinsælan safnkost, fræðandi en jafnframt skemmtilega viðburðadagskrá og notalegt og fallegt umhverfi,“ segir Lísa Zachrison Valdimarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Kópavogs. „Við höfum á undanförnum árum lagst í miklar endurbætur og breytingar á báðum söfnum okkar, aðalsafni og Lindasafni, og er gaman að segja frá því að útkoman er að skila sér í meiri notkun á söfnunum og auknum gestafjölda,“ bætir Lísa við.

Árið 2022 komu yfir 180.000 gestir á safnið og er það metfjöldi frá upphafi þess. „Við viljum að safnið sé þriðji áfangastaðurinn sem fólk kemur á yfir daginn og höfum í samvinnu við arkitektinn okkar, Theresu Himmer, skapað rými sem er óformlegt þar sem hægt er að sækja sér þekkingu, læra, leika sér, lesa eða bara vera.“

Bóksafnið heillaði mest

Lísa er menntaður bókasafns- og upplýsingafræðingur með kennsluréttindi og tók við sem forstöðumaður Bókasafns Kópavogs haustið 2015. Hún hafði áður unnið á safninu þegar aðalsafn opnaði í núverandi húsnæði í Hamraborg 6a. „Vorið 2002, þegar ég var að ljúka kennsluréttindanámi mínu, hafði Hrafn Harðarson, þáverandi bæjarbókavörður, samband við mig og hvatti mig til að sækja um stöðu deildarstjóra á nýju safni Bókasafns Kópavogs sem átti að opna í Hamraborg 6a þetta vor. Ég sótti um í gamni og fékk stöðuna. Ég starfaði hjá Bókasafni Kópavogs í eitt og hálft ár og á þessum tíma komst ég að því að þetta væri það sem ég vildi gera í lífinu, mikið frekar en að kenna. Ég tók þátt í því að móta safnið á nýja staðnum og þróa ýmsa þætti og nýjungar sem teknar voru í gagnið þegar safnið flutti. Þetta var ofsalega skemmtilegur tími og lærdómsríkur og það var gott að vinna með Hrafni. Ég lærði heilmargt af honum og á honum margt að þakka. Hann treysti mér þrátt fyrir að ég hafi einungis verið 27 ára. Ekki grunaði mig á þessum árum að ég myndi koma til baka og vinna á safninu í stöðu Hrafns 13 árum seinna,“ segir Lísa og brosir.

Þar sem hjartað slær

Miklar breytingar hafa orðið á starfsemi bókasafna á undanförnum árum, tæknin verður sífellt meiri og bókasöfn 21. aldar eru að þróast meira og meira yfir í að verða öflugar menningarmiðstöðvar og oft talað um bókasöfn sem staðurinn þar sem hjartað slær í samfélögum. „Við erum heppin með staðsetningu aðalsafns, áður fyrr var það miðsvæðis í Kópavogi, en það hefur örlítið breyst vegna stækkunar bæjarins. Hins vegar er safnið í góðri tengingu við allar samgöngur og auðvelt aðgengi að því og einnig er mikil tenging við aðrar menningarstofnanir í bænum. Við njótum góðs af því og erum í miklu samstarfi við hinar stofnanirnar sem er styrkur fyrir okkur öll. Draumur okkar í framtíðinni er að opna nýtt útibú í efri byggðum Kópavogs til að koma til móts við íbúa þar og vonum við að sá draumur verði að veruleika í nánustu framtíð,“ greinir Lísa frá.

Að lokum vill Lísa koma á framfæri þökkum til Kópavogsbúa fyrir samstarfið á undanförnum 70 árum og einnig til starfsfólks fyrir ómælda vinnu við uppbyggingu safnsins og þjónustu í þágu bæjarbúa.

„Við starfsfólk safnsins hlökkum til næstu 70 ára með ykkur, kæru Kópavogsbúar. Áfram við!“ segir Lísa og minnir bæjarbúa á að fylgjast með afmælisdagskránni á vefsíðu safnsins og kíkja á safnið á afmælisdaginn, 15. mars. Þar verður mikið um að vera og eitthvað fyrir alla, eins og venjulega.

Fjölmennt á leiksýningunni Eldfærin á Bókasafni Kópavogs

Saga safnsins:

70 ára afmæli Bókasafns Kópavogs

Liðin eru 70 ár frá stofnun Bókasafns Kópavogs. Saga safnsins hófst með Lestrarfélagi Kópavogshrepps sem Jón úr Vör hafði talsvert fyrir því að stofnað væri. Ræddi Jón fyrst við oddvita Kópavogshrepps Finnboga Rút Valdimarsson um nauðsyn á stofnun bókasafns árið 1948 og ári síðar voru 2000 kr. lagðar til málsins. Í janúar 1953 sendi Framfarafélag Kópavogs íbúum hreppsins, öllum 208 talsins, stutt dreifibréf þar sem athugað var með áhuga fyrir því að stofna lestrarfélag. Því var allvel tekið!

Félagið var á endanum stofnað í mars 1953. Var lestrarfélagið með aðsetur í Kópavogsskóla og seinna einnig í Kársnesskóla og voru Jón úr Vör og Sigurður Ólafsson fyrstu bókaverðir safnsins.
Árið 1964 var safnið flutt í 150 fermetra húsnæði í félagsheimili bæjarins. Safnið flutti svo í Fannborg 3-5 í 800 fermetra húsnæði árið 1981. Árið 2002 flutti safnið á núverandi stað í Hamraborg 6a í 1400 fermetra og sama ár opnaði útibúið Lindasafn í Lindaskóla.

Þrír forstöðumenn hafa starfað á Bókasafni Kópavogs frá opnun safnsins: Jón úr Vör frá stofnun til 1977, Hrafn Andrés Harðarson frá 1977 til 2015 og Lísa Zachrison Valdimarsdóttir frá 2015 til dagsins í dag.
Hrafn Andrés Harðarson var töluverður frumkvöðull þegar kom að bókasafnsstarfinu, til dæmis voru ljósmyndaútlán tekin upp árið 1981 og safnið fyrsta almenningsbókasafnið til að taka upp útlán á myndböndum (VHS) árið 1985. Þá var Bókver, fyrsta tölvukerfi bókasafns á Íslandi, búið til fyrir Bókasafn Kópavogs fyrir tilstuðlan Hrafns. Var það kerfi notað á aðalsafni þar til Gegnir, samlag bókasafna á Íslandi, tók við árið 2004. Fyrsta sjálfsafgreiðsluvélin á safninu, sem kölluð var Samúel, var svo tekin í notkun árið 2007 og markaði þannig framtíðina í útlánum og skilum bóka. Með komu Lísu Zachrison Valdimarsdóttur sem forstöðumanns safnsins var allt bókasafnið fært í nútímalegan og flottan búning eftir hönnun Theresu Himmer, innanhússarkitekts. Fjölnotasölum og fundarherbergjum var bætt við, lesrýmum fjölgað og öll tækni og þjónusta safnsins leidd, enn á ný, til framtíðar.

Bókasafnið virkur þátttakandi í samfélaginu

Bókasafn Kópavogs hefur frá upphafi verið mjög virkur þátttakandi í samfélaginu og er í dag orðin sú menningarmiðstöð sem meðlimum Framfarafélagsins hefur aðeins getað dreymt um á sínum tíma. Starfsfólk safnsins hefur ávallt lagt metnað sinn í að vera með framúrskarandi þjónustu við íbúa Kópavogs. Barnastarfið skipar stóran sess í starfseminni og börn á öllum aldri hafa tekið virkan þátt í starfinu í mörg ár. Það má áætla að flestir ungir Kópavogsbúar hafi komið á safnið í sinni barnæsku hvort sem er með fjölskyldu eða skóla en fjölbreytt fræðslustarf fyrir skólahópa hefur verið á safninu í mörg ár, auk þess sem fjölskyldur geta ávallt fundið eitthvað við hæfi. Bókasafn Kópavogs hefur úrvals bókakost og býður upp á fjölbreytta klúbba og viðburði, mætti þar helst nefna bókmenntaklúbba, fjölskyldustundir, foreldramorgna, handavinnuhóp, sögustundir og margskonar staka viðburði, oft í samstarfi við aðrar menningarstofnanir í Kópavogi. Þá býður safnið upp á fundarherbergi, vinnuaðstöðu og lesrými fyrir gesti og er safnið hlutlaus staður þar sem öll eru velkomin – alltaf.

Hér er ein vísa eftir Jón úr Vör

Ekki þarf að gylla gull,
gullið verður ætíð bjart;
alltaf verður bullið bull
þótt búið sé í rímað skart.
(Jón úr Vör)

Sögustund á Aðalsafninu

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar