Varabæjarfulltrúi valinn í íslenska landsliðið í körfuknattleik

Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar í körfuknattleik og varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Garðabæjar hefur verið valinn í íslenska körfuboltalandsliðið fyrir síðustu leiki þess í undankeppni HM 2023.

Fannst sérstaklega hallærislegt þegar menn voru að hætta og byrja aftur

Hlynur var hættur í landsliðinu og spilaði síðast með því gegn Portúgal í ágúst 2019. Hann hefur hins vegar gefið aftur kost á sér í það fyrir leikina gegn Spáni heima og Georgíu ytra. ,,Mér fannst alltaf sérstaklega hallærislegt þegar menn voru hættir með landsliðinu, en voru svo að koma aftur,“ segir Hlynur í viðtali við Vísir um endurkomu sína í landsliðið. ,,Graig (innsk. blm. Craig Pedersen landsliðsþjálfari Íslands) hringdi í mig og spurði hvort ég væri klár í slaginn og ég þurfti að hugsa þetta aðeins enda er ég á fimmtuugsaldri. Mig langaði að vera með og vonandi get ég hjálpa eitthvað til,“ sagði Hlynur sem er auk þess að vera leikmaður Stjörnunnar og varabæjarfulltrúi þá er hann yfirþjálfari yngri flokka Stjörnunnar og íþrótta- og rekstarstjóri körfuknattleiksdeildar.

Ísland mætir Spáni í Laugardalshöllinni 23. febrúar og Georgíu í Tbílísi þremur dögum seinna. Svo gæti farið að sigur í leiknum gegn Georgíumönnum tryggi Íslendingum 3. sæti riðilsins og þar með sæti á HM. Spurningin er svo hvað Hlynur gerir í framhaldinu ef Íslands kemst á HM og Graig óskar eftir kröftum hans.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar