Ætla að endurtaka leikinn í Salnum

Í byrjun árs stóðu Örn Árnason og Jónas Þórir fyrir söngskemmtun í Salnum þar sem eldri borgurum í Kópavogi var boðið að hlýða á lög Sigfúsar Halldórssonar. Viðtökurnar voru vægast sagt góðar og því hafa þeir félagarnir ákveðið að endurtaka leikinn þann 26. febrúar, en titillinn á dagskrá þeirra félaga er Amor og Asninn.

Lög Sigfúsar verða aldrei of oft sungin. Hver smellurinn á fætur öðrum úr smiðju hans hafa fest sig í sessi sem dægurlög, sem bæði ungir sem gamlir þekkja og vekja með okkur góðar minningar sem gott er að orna sér við.
Við á Kópavogspóstinum hittum Örn á kaffi- húsi í Hamraborg. Það lá vel á honum eins og ævinlega.

Örn ertu alltaf í góðu skapi? ,,Já, mér finnst betra að vera sólarmegin í lífinu og sérstaklega núna þegar ég uppgötvaði Sigfús Halldórsson aftur. Það er mjög gaman að syngja lögin hans og hann hefur svo einstakt lag á því að láta lag og texta falla saman,” segir Örn brosandi.

Fundu margar perlur í viðbót

Uppgötva hann aftur? ,,Já, ég söng nokkur lög eftir Sigfús í Hörpu fyrir mörgum árum, man nú ekki hvert tilefnið var, en eftir að við Jónas fórum að skoða fleiri lög en þau sem oftast eru sungin þá fundum við margar perlur í viðbót.”

Hvers vegna Sigfús? ,,Hann hefði orðið 100 ára í september 2020 og við ætluðum að gera þetta þá, en þá var veirufjandi hérna sem kom í veg fyrir það þannig að nú var komið að þessu. Og svo er hann líka heiðursborgari Kópavogs.”

Er gaman að syngja lögin hans? ,,Já, þau eru svo lýrisk og þegar rýnt er í textana og tilurð þeirra þá kemur margt skemmtilegt í ljós. Svo tengdist hann líka leikhúsinu því hann var leiktjaldamálari og sem dæmi þá var hann að vinna í Iðnó 1946 í leiksýningu sem hét Tondeleyó. Tómas Guðmundsson var þar að sniglast enda góður vinur leikstjórans Indriða Waage og hann rétti Tómasi texta sem var textinn að Ton-deleyó. Það lag var þó ekki í umræddri sýningu, en þannig varð lagið til.”

Hverju eiga gestir von á í sýningunni ykkar? ,,Við förum nú ekki yfir allan feril Sigfúsar, enda þyrfti nokkur kvöld í það, en fjöllum um tilurð margra laga og texta. Einnig voru pabbi og Sigfús kunningjar og ég man eftir því að Sigfús kom einu sinni í heimsókn, þá voru þeir að skemmta á 17.júní og ég fékk að skottast með.”

Takk fyrir spjallið Örn. ,,Takk sömuleiðis og takk fyrir kaffið,” segir Örn að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar