Sigurður með 62% markvörslu og Stjarnan komið í undanúrslit bikarsins

Stjarnan tryggði sér sæti í undanúrslitum Powerade-bikarsins í handknattleik í gærkvöldi eftir magnaðan, en mjög svo dramatískan eins marka sigur á Íslands- og bikarmeisturum Vals, 30-29, í TM höllinni.

Það var Gunnar Steinn Jónsson sem tryggði Stjörnunni sigur þegar hann skoraði sigurmarkið þremur sekúndum fyrir leikslok og Valsmenn, sem höfðu fyrir leikinn við Stjörnuna aðeins tapað einum leik í allan vetur, gátu ekki brugðist við og dómararnir flautuð leikinn af og mikil fagnaðarlæti brutust út á meðal leikmanna og stuðningsmanna Stjörnunnar.

Fyrir utan Patrek Jóhannesson þjálfara liðsins, sem sett leikinn vel upp, þá stóðu allir leikmenn sig vel og sérstaklega hinn ungi og efnilegi markvörður Stjörnunnar, Sigurður Dan Óskarsson, sem fékk tækifærið undir lok leiksins og nýtti það heldur betur vel, en hann varði 8 skot og endaði með 62 prósent markvörslu.

Undanúrslitaleikirnir í bikarnum fara svo fram 16. mars og úrslitaleikurinn er 18. mars. Dregið verður í vikunni en í pottinum verða auk Stjörnunnar, Afturelding, Fram og Haukar. 

Mynd: Patrekur fer yfir stöðuna með leikmönnum í leikhléi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar