Í lok maí í fyrra náði alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið COWI samkomulagi við Mannvit um kaup á því síðarnefnda og að Mannvit yrði samþætt rekstrareining innan COWI Group. Þann 12. febrúar sl. breytti Mannvit nafni fyrirtækisins í COWI og starfar nú á fullu undir merkjum COWI.
COWI er með aðalskrifstofuna sína að Urðarhvarfi 6 í Kópavogi, en með samruna fyrirtækjanna munu sérfræðingar COWI nú telja um 8.000 einstaklinga víða um heim að meðtöldum 280 manns á Íslandi og er stór hluti þeirra með aðstöðu í Urðarhvarfi.
Kópavogspósturin/Garðapósturinn heyrði í Friðriki Ómarssyni, markaðsstjóra COWI á Íslandi og spurði hann nánar um þennan samruna.
COWI sá tækifæri á íslenska markaðnum
Hvernig kom það til að Mannvit ákvað að sameinast COWI og hver er ávinningurinn með sameiningunni og hvernig fyrirtæki er Mannvit/COWI? ,,Mannvit er verkfræðistofa sem fagnaði 60 ára afmæli á síðasta ári og sameinaðist COWI, sem er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki með höfuð- stöðvar í Danmörku. Fyrirtækin eru í raun keimlík, fyrir utan stærðina, en þjónustusvið beggja nær yfir verkfræði, orku- og umhverfismál. COWI eru einnig sterkir í arkitektúr en þar hefur Mannvit ekki veitt þjónustu. COWI hefur sterka stöðu á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Norður-Ameríku og Indlandi auk starfsemi í yfir 35 löndum og vinna að um 10.000 verkefnum að staðaldri víða um heim,” segir hann og heldur áfram: ,,Kaup COWI á Mannviti eru hluti af vaxtarstefnu COWI, sem felur meðal annars í sér að efla markaðsstöðu samstæðunnar á Norðurlöndunum. COWI sá bæði tækifæri á íslenska markaðinum og í því að íslenskir verkfræðingar eru með fjölbreytta reynslu sem getur nýst mjög vel í erlendum verkefnum. Þeir setja mikla áhersla á ráðgjöf við sjálfbæra orkuframleiðslu og þá kemur reynsla Mannvits í vatnsafls- og jarðhitavirkjunum sér vel. Ávinningurinn af sameiningu er m.a. meiri sveigjanleiki og aukin samkeppnishæfni. Nú getum við boðið íslenskum viðskiptavinum aukna sérfræðiþekkingu sem og aukinn mannskap til að vinna verkefni frá frumhugmynd til verkloka. Að sama skapi veitir COWI samstæðan okkur aukin tækifæri til þátttöku í verkefnum erlendis. Þetta skapar stöðugleika fyrir starfsfólk okkar og reksturinn í heild.”
COWI er gríðarlega sterkur ráðgjafi á sviði vindorku, bæði á landi og hafi
Þú segir m.a. að það sé liður í sameiningunni að styðja við markmið viðskiptavini ykkar á vegferð grænna umskipta – hvernig þá og um hvað snúast þessi grænu umskipti? ,,Þessi grænu umskipti eru margþætt; allt frá orkumálum, vistvænni byggingarefnum og vistvænni samganga til hringrásarhagkerfisins og bættri nýtingu auðlinda. Við erum með sérfræðinga á öllum þessum sviðum sem geta aðstoðað viðskiptavini okkar hvar sem þeir eru staddir í sinni vegferð. Vert er að nefna að COWI er einnig gríðarlega sterkur ráðgjafi á sviði vindorku, bæði á landi og hafi, auk ráðgjafar við framleiðslu rafeldsneytis.“
Við erum sem betur fer fremst meðal þjóða í nýtingu á endurnýjanlegri orku í raforkukerfinu
Er þessi þróun á mikilli ferð, eru breytingarnar að gerast hraðar en reiknað var með eða hægar? ,,Þróunin hefur verið hröð í orkumálum og sumt hefur breyst hratt, eins og löggjöf í byggingariðnaði, en annað mun taka mun lengri tíma, eins og að þróa og skipta út jarðefnaeldsneyti í skipa- og flugvélaiðnaði. Við erum sem betur fer fremst meðal þjóða í nýtingu á endurnýjanlegri orku í raforkukerfinu en við getum gert enn betur í samgöngum. Bann við nýskráningu fólksbíla sem eru knúnir af dísil og bensíni árið 2030 mun flýta fyrir þróuninni í samgöngum.”
Markmið að frá árinu 2027 komi allar tekjur frá verkefnum sem stuðla að sjálfbærri þróun
Þið hafið sett ykkur það markmið að á næstu árum komi allar tekjur fyrirtækisins frá verkefnum sem stuðla að sjálfbærri þróun – eru það raunhæf markmið og hvenær reiknið þið með að þið komist að endamarki, að allar tekjur verði út frá sjálfbærum verkefnum? ,,Það er rétt, við höfum sett okkur það markmið að frá árinu 2027 komi allar okkar tekjur frá verkefnum sem stuðla að sjálfbærri þróun. Það er vissulega háleitt markmið en við þurfum að setja okkur háleit markmið til þess að geta arfleitt börnin okkar að betri framtíð. Við þurfum að takast á við áskoranir í umhverfismálum og ganga ekki um of á auðlindir jarðar en í grunninn snýst sjálfbærni náttúrulega um það.”
Staðið við stóru orðin
Og frá því að þið hófuð þessa vegferð þá hafið þið alfarið hafnað verkefnum sem snúa að jarðefnaeldsneyti, bæði í leit og framleiðslu – hafið þið getað haldið í það og er nóg af verkefnum? ,,Já, það hefur verið staðið við stóru orðin með því að hafna slíkum verkefnum og þess í stað hefur fyrirtækið sérhæft sig meira í ráðgjöf í endurnýjanlegri orku og umhverfismálum. Það hefur verið nóg af verkefnum undanfarin ár, bæði í byggingum, iðnaði og ekki síst á sviði endurnýjanlegrar orku, en við erum einmitt ein af þeim verkfræðistofum sem hefur einna mestu þekkingu og reynslu á því sviði á Íslandi.”
En með þessari sameiningu, breytast þá verkefnin ykkar eitthvað hérna heima og eru vaxtarmöguleikarnir miklir á Íslandi? ,,Verkefnin okkar breytast lítið hér heima enda lítum við svo á að það séu mikil vaxtartækifæri á sviði orku og innviða hér á landi þar sem við höfum starfað í sl. áratugi. Mannvirkjagerð er líka stór hluti af okkar veltu og verður áfram. Þess vegna horfum við með björtum augum á vöxtinn til framtíðar hér heima.”
Áskoranirnar eru aðallega tvenns konar; ná í rétta starfsfólkið og í réttu verkefnin
Hverjar eru svo helstu áskoranir fyrir fyrirtæki eins og COWI í komandi framtíð? ,,Áskoranirnar eru aðallega tvenns konar; ná í rétta starfsfólkið og í réttu verkefnin. Það er gaman að geta sagt frá því að áform COWI eru að auka umsvif sín á Íslandi og fjölga starfsfólki. Til þess að fá hæfasta fólkið til starfa höfum við aukið réttindi starfsfólks í fæðingarorlofi. COWI er þar með fyrsta verkfræðistofan á Íslandi sem býður starfsfólki í fullu starfi sex mánaða fæðingarorlof með uppbótargreiðslum sem samsvara fullum launum. Það er ákaflega ánægjulegt að geta komið með slíka viðbót inn í verkfræðibransann ásamt því að ráða fleiri verkfræðinga til starfa í spennandi verkefni á ólíkum sviðum,” segir Friðrik að lokum.