Það er mikill spenna í loftinu og jafnvel smá stress – Lið Ragga’s Angels á leið til Houston

Liðið Ragga´s Angels úr Garðaskóla er á leiðinni til Houston í Texas 15. apríl til að taka þátt í heimsleikunum í First Lego League. Þetta er í fyrsta skipti sem lið frá Íslandi tekur þátt, en í liði Garðaskóla eru þau Ágúst Fannar Einarsson, Kjartan Páll Kolbeinsson, Jón Kári Smith, Högna Þóroddsdóttir, Helen Silfá Snorradóttir og Benedikt Aron Kristjánsson.

Eins og bæjarbúar muna sjálfsagt eftir þá sigraði liðið með eftirminnilegum hætti First Lego League keppnina á Ísland í Háskólabíó í byrjun nóvember 2023, en liðið sigraði  í vélmennakappleiknum, hlaut viðurkenningu fyrir besta hönnun og forritun á vélmenni og var í 2.-3. sæti með nýsköpunarverkið sitt. Þessi árangur skilaði liðinu sigri titlinum First Lego League meistari á Íslandi og tók líðið í framhaldinu þátt sem gestur í dönsku úrslitakeppninn. Síðustu ár hefur íslensku sigurvegari alltaf tekið þátt í úrslitum skandinavísku keppninni en 2023 var í fyrsta sinn sem Danir héldu sína eigin úrslitakeppni. Þar stóð liðið sig mjög vel og var árangurinn alveg á pari við sterkustu dönsku liðin. Í framhaldi af því var ákvörðun tekin að vera fyrsta íslenska liðið sem tekur sæti Íslands á heimsleikunum í First Lego League.

Það er Háskóli Íslands sem hélt utan um keppnina á Íslandi en markmið hennar er að auka áhuga ungs fólks á tækni og vísindum og efla færni og lausnarmiðaða hugsun. Í keppninni reynir á nýsköpunarhugsun og samskipta- og samstarfshæfni liða en um leið er ætlunin að byggja upp sjálfstraust ungs fólks.

Liðsmenn Ragga´s Angels eru allir þátttakendur í valgreininni Forritunar- og hönnunarkeppni grunnskóla sem er í boði fyrir nemendur í 10. bekk Garðaskóla en einnig er í boði valgrein fyrir 9. bekk þar sem nemendur geta lært að vinna með vélmennið og æft sig í að leysa þrautir. Það er Ragnheiður Stephensen sem er kennari og leiðbeinandi þeirra en hún kennir einnig stærðfræði í Garðaskóla.

Þess má geta að First Lego League er alþjóðleg Lego keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna í 110 löndum víða um heim. Svo árangur krakkanna í Garðaskóla er frábær.

Garðapósturinn hitti Ragnheiði sl. sunnudag þegar hún var með nemendum sínum í loka undirbúningi fyrir ferðina og það mátti finna létta spennu í loftinu.

Lið Ragga’ Angels! F.v. Högna, Kjartan Páll, Jón Kári, Helen Silfá og Benedikt Aron, Ágúst Fannar og Ragnheiður þjálfari

Bæta þrautabrautina og að undirbúa allan flutning á ensku

Hvernig hefur undirbúningurinn gengið frá keppninni í Óðinsvé í lok nóvember og um hvað hefur hann snúist? ,,Undirbúningurinn var mestur fyrir keppnina í Óðinsvé. Liðið stóð sig vel í að breyta og bæta á þrautabrautinni og að undirbúa allan flutning á ensku. Þau sýndu mikinn metnað og stóðu sig hreint frábærlega enda skilaði það sér í Óðinsvé. Undirbúningurinn núna hefur verið að bæta aðeins við okkur í þrautabrautinn og undirbúa sýningarbásinn sem við verðum með þarna úti en þar kynnum land og þjóð, liðið og nýsköpunarverkefnið okkar,“ segir Ragnheiður,en liðið stefnir á að bæta við stigasöfnunina í þrautabrautinni eins og hún minnist á: ,,Þegar við vorum í Háskólabíói var hámarkið okkar í þrautabrautinn 355 stig. Þegar við vorum í Óðinsvé var hámarkið 440 stig og núna er það 475 stig.“

Eru krakkarnir og þú sjálf orðin spennt fyrir ferðalaginu og keppninni? Eru fleiri að fara með og hvernig er dagskráin hjá ykkur? ,,Það er mikill spenningur í loftinu og jafnvel smá stress. Ásta Huld aðstoðarskólastjóri Garðaskóla fer með okkur, bæði upp á öryggið því það er miklu öruggara að vera tveir með hópinn en einnig vegna þess að reglur First Lego krefjast þess að það séu tveir leiðbeinendur með hverju liði,“ segir hún og bætir við varðandi dagskrá liðsins: ,,Við leggjum af stað 15. apríl en þetta er langt ferðalag svo við verðum ekki komin fyrr en aðfaranótt 16. að staðartíma. Við nýtum 16. apríl til að jafna okkur eftir ferðalagið og skoða okkur kannski aðeins um. 17. apríl byrjar svo formleg dagskrá þar sem við setjum upp básinn okkar og kynnum okkur nákvæma dagskrá næsta daga. Við erum ekki komin með lokadagskrá en við vitum að á 18. apríl eru æfingaleikir í vélmennakappleik og mögulega hittum við dómnefnd í einhverjum af hinum þrem þáttunum. Svo er keppnin í vélmennakappleik 19. apríl og restin af keppninni í hinum þáttunum og svo á laugardeginum 20. apríl eru líka einhverskonar úrslit og verðlaunaafhending en í raun vitum við þetta ekki nákvæmlega fyrr en á kynningarfundi fyrir leiðbeinendur 17. apríl. 21 apríl er svo heimferðadagur og verðum við komin heim að morgni 22. apríl. Þannig þetta er heilmikið ferðalag.“

Fyrst við stóðum jafnfætist Dönunum þá ákváðum við bara að kíla á þetta

Óraði ykkur einhvern tímann fyrir því þegar þið hófuð þátttöku í keppninni á Íslandi að þið gætuð farið þetta langt, komin í lokakeppnina fyrst íslenskra liða?  ,,Okkar markmið var alltaf að sigra keppnina hér á Íslandi og fara þá til Óðinsvé að keppa. Við vorum ekki mikið að spá í keppninni í Houston og vissum í raun ekki af þeim möguleika fyrr en við vorum í Óðinsvé og ræddum við lið þar sem hafði sigrað í Danmörku í fyrra og hafði farið til Houston að keppa. Sigur í íslensku keppninni gefur alltaf sæti á heimsleikunum en það hefur enginn tekið það sæti áður, væntanlega af því að þetta er ansi langt ferðalag og mikill kostnaður sem fylgir því. En fyrst við stóðum alveg jafnfætist Dönunum þá ákváðum við bara að kíla á þetta.“

Kostar 2,5 milljónir að taka þátt í keppninni

En þið hafið lagt mikið á ykkur til að komast alla leið og svo kostar þetta um 2,5 milljónir að taka þátt í keppninni í Houston. Hafið þið verið að safna styrkjum og hvernig hefur það gengið? ,,Styrkjasöfnun hefur gengið vel. Við fórum í mjög frumlega fjáröflun sem var flugpunktasöfnun og náðum við að safna 755.000 punktum og nýttum þá upp í að panta fyrsta fluglegginn. Síðan hafa flest fyrirtæki sem við höfum leitað til verið mjög jákvæð gagnvart verkefninu og hafa styrkt okkur með fjárframlögum. Eins fengum við líka styrki frá tveimur ráðuneytum.“  

En hvaða þýðingu hefur þetta fyrir krakkana að vera komin alla leið? Er mikil spenna og eftirvænting og kannski létt stress í þeim? ,,Jú, vissulega er spenna og tilhlökkun hjá þeim enda alveg að koma að þessu. En vonandi verður þetta frábær upplifun fyrir þau og líka góð reynsla í reynslubankann og eitthvað sem þau eiga eftir að muna eftir lengi.“

Lið Ragga’s Angels við þrautabrautina

Rosalega stór viðburður

Hvað með væntingarnar, hafið þið sett ykkur einhver markmið eða vitið þið almennilega í hvað þið eruð að fara?  ,,Við vitum að við erum að taka í rosa stórum viðburði því þetta eru ekki aðeins heimsleikar í First Lego League heldur í öllum tækni og hönnunarkeppnum sem fyrirtækið First stendur fyrir í Bandríkjunum. Þessar keppnir eru samtals fjórar og þessi viðburður því u.þ.b. 50.000 manna viðburður ef tekið er mið af þátttakendum, starfsfólk og gestum. Meira vitum við í rauninni ekki um þennan viðburð nema út á hvað okkar keppni gengur. Okkar væntingareru þær að við náum að sýna í þrautabrautinni það sem við getum og helst ná umferð þar sem við náum öllum 475 stigunum, sem er afar erfitt en það má samt vona. Við vitum að við erum með gott nýsköpunarverkefni og eiga krakkarnir eftir að flytja það vel því þau hafa gert það í öll skiptin. Eins eiga þau eftir að standa sig vel í hönnunarviðtalinu en vissulega erum við með frekar einfalda forritun og alveg örugglega einhver lið sem eru með flóknari en við, en hönnunin og lausnarmiðunin er góð. Liðsheildin er eitthvað sem við þurfum að vera betri í að sýna betur og vonandi gengur það líka vel. En við vitum að margar þjóðir í heiminum og fylki í Bandaríkjunum eru með meiri hefð en við þannig við værum mjög sátt ef við næðum að vera einhvers staðar um miðja keppni. En svo getur allt gerst,“ segir hún brosandi.

108 lið keppa á mótinu

Hvað eru þetta mörg lið sem munu keppa á lokamótinu í Houston? ,,Síðustu fréttir sögðu að það yrðu 108 lið að keppa í Frist lego League og koma þau frá öllum heimsálfum þó að ég haldi að flest séu frá Bandríkjunum, en hvert fylki á 1-3 lið í keppninni eftir stærð fylkja. Við erum ekki alveg viss hverjar þátttökuþjóðirnar eru nákvæmlega í ár frá öðrum löndum en í síðustu keppni voru lið frá 92 þjóðum í heldarkeppninni.“

Þetta nærir keppnisskap kennarans

Hvað með kennarann sjálfann, mikill keppnismaður þar á ferð enda margfaldur Íslandsmeistari í handbolta og fyrrverandi landsliðskona í handknattleik. Ertu sjálf full tilhlökkunar? ,,Vissulega er ég spennt og auðvitað nærir þetta keppnisskapið. Ég reyni samt að passa mig að setja ekki of mikla pressu á krakkana og fyrst og fremst er þetta upplifun, reynsla og skemmtun fyrir þau. En það er líka skemmtilegra ef vel gengur svo þetta þarf allt að vera í jafnvægi.“

En hvaða þýðingu hefur þetta fyrir krakkana að taka þátt í svona stórri keppni? ,,Þetta verður auðvitað gríðarleg reynsla að taka þátt í svona stórum viðburði og kynnast ólíku fólki. Þetta er eitthvað sem þau hafa aldrei gert áður og eiga mögulega ekki eftir að gera aftur. En það verður svo bara að koma í ljós hvernig þessi reynsla verður og vonandi verður hún frábær.“

Hægt að fylgjast með liðinu á @raggas.angels

Og verður hægt að fylgjast með ykkur þarna úti og er enn hægt að styðja við hópinn? ,,Krakkarnir verða með sína eigin Instagram síðu sem heitir @raggas.angels og ætla þau að setja þar inn það sem þau vilja sýna frá keppninni. Eins reikna ég með að það birtist fréttir á Facebook síðu skólans. Varðandi stuðning við liðið þá biðjum við fólk bara um að styðja við næsta lið sem nær þessum árangri því í raun erum við búin að safna fyrir okkar ferð,“ segir Ragnheiður og Garðapósturinn óskar þessum frábæru krökkum góðs gengis í Houston.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar