Voru í störukeppni við tréð í þrjú ár

Garðabær hefur undanfarin ár auglýst eftir fallegum greintrjám úr einkagörðum Garðbæinga til að nota sem jólatré á opnum svæðum bæjarins. Bæjarbúar hafa tekið þessari umleitan Garðabæjar vel og mörg falleg jólatré prýtt Garðabæ, bæjarbúum til ánægju og yndisauka.

Hið fallega jólatré sem sem stendur á Garðatorgi í dag og tendrað var sl. laugardag kemur úr einkagarði í Víðilundi, en vegna umhverfissjónarmiða og til að spara kolefnissporin tók Garðbær þá ákvörðun ásamt vinabæ sínum, Asker í Noregi, fyrir þremur árum að hætt að þiggja jólatré frá Asker.

Jólatréð í ár kemur frá hjónunum Andra Gunnarssyni og Heiðbjörtu Vigfúsdóttur, íbúum í Víðilundi í Garðabæ.

Garðapósturinn spurði hjónin hvernig það hafi komið til að þau ákváðu að hafa samband við Garðabæ til að athuga hvort þeir vildu taka grenitré úr garðinum hjá sér? ,,Við fluttum í húsið fyrir tæpum þremur árum og tók- um þá við stórglæsilegu búi af frumbyggjum. Í garðinum eru þónokkur gömul tré sem líklega fóru niður í jörð fljótlega eftir að lóðin var mótuð um 1969 – þar með talið jólatréð í ár. Fyrsta vorið okkar hér felldum við þónokkur tré, stórar og miklar aspir auk annarra trjáa sem voru farin að vaxa ofan í hvert annað. Fyrir snarbrjálað garðyrkjufólk eins og okkur er mikill lúxus að fá að grisja garðinn í stað þess að þurfa að bíða í áratugi til að sjá tréin vaxa. Við erum búin að vera í störukeppni við þetta tiltekna tré frá því við fluttum inn og vildum gefa því séns. Það hefur séð til þess að við þurftum að fara á tveggja mánaða fresti upp á þak að hreinsa úr rennum og það sem gerði svo útslagið var að við skiptum út hellu- lögn fyrir framan húsið og sáum fram á að með tímanum myndi tréið lyfta upp og skemma nýju aðkomuna að húsinu sem gengur náttúrulega ekki. Við heyrðum af því að bærinn tók grenitré úr görðum síðastliðið ár og fannst kjörið að kanna málið hjá bænum núna við sumarlok,” segir Andri.

Andri bjóst við öllu því versta

Og gekk þetta vel fyrir sig, fagmenn á ferð frá bænum sem tóku niður tréð? ,,Alveg meiriháttar vel. Andri var að sjálfsögðu búinn að mikla þetta mikið fyrir sér og bjóst við öllu því versta en tréð fór á innan við 20 mínútum og fór það eins og íspinni með kranakló á vörubíl,” segir Heiðbjört.

Voru tilbúinn með ræðu

Og mættuð þið á aðventuhátíðina sl. laugardag á Garðatorgi? ,,Við erum nú hrædd um það. Mættum í okkar fínasta pússi og vorum tilbúin með ræðu til vonar og vara en það kom ekki til þess að hún var flutt,” segir Andri í léttum tóni.

Okkar tré er aðal jólatréð í bænum – spara kolefnissporin

Eruð þið ekki bara nokkuð stolt/ánægð með af því að hafa útvegað Garðbæingum jólatréð í ár og sparað þar með nokkur kolefnissporin þar sem tréð er ekki flutt frá Asker í Noregi eins og gert var í tugi ára? ,,Algjörlega. Hér er mikil úthverfastemning og Andri var búinn að slá þvílíkt um sig í gríni og segja öllum sem á hann vildu hlusta að tréið úr garðinum yrði náttúrulega aðal tré bæjarins enda beri allt af hjá húsráðendum. Þetta paraðist því prýðilega við stóru orðin þegar okkar var tilkynnt að það færi á Garðatorg þegar það var fellt! Okkur finnst frábært að hægt sé að mætast svona með bænum og er sjaldgæft tilvik þar sem allir vinna – húsráðendur losna við mikinn höfuðverk og kostnað að farga tréinu, bærinn fær undurfagurt jólatré að kostnaðarlausu og umhverfssjónarmiðum gerð skil þar sem því var ekið innan við 1km frá fyrri heimastað. Að endingu verður það kurlað niður og sett í stíga og beð bæjarins,” segir Heiðbjört með bros á vör að lokum.

Jólatréð úr Víðilundi komið á Garðatorg

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar