Álögur lækka og gjöldum stillt í hóf

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2023 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs við seinni umræðu þriðjudaginn 22.nóvember. Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun 2024-2026.

Áætlunin tók óverulegum breytingum milli umræðna en þó gert ráð fyrir betri afkomu en við fyrri umræðu, 87 í stað 83 milljóna.

Gjaldskrár voru samþykktar við seinni umræðu og hækka þær um 7,7%.

„Áætlun ársins 2023 endurspeglar að mínu mati ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun. Grunnþjónusta við bæjarbúa verður efld og við forgangsröðum fjármunum í skóla- og velferðamál. Álögur lækka og gjöldum er stillt í hóf því almennt munu gjaldskrár ekki fylgja þeim kostnaðarhækkunum sem liggja fyrir. Með þessu er Kópavogur, næst stærsta sveitarfélag landsins, að leggja sitt af mörkum við að ná verðbólgu niður og liðka fyrir gerð kjarasamninga,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Í fjárhagsáætlun kemur fram að umfangsmiklar fjárfestingar eru á vegum bæjarins á næsta ári, til að mynda í skólum, leikskólum og íþróttamannvirkjum. Einnig verður fjármunum varið í markvisst viðhald fasteigna og loftgæði verða bætt í stofnunum bæjarins.

Fjárhagsáætlun var samþykkti með atkvæðum meirihluta bæjarstjórnar en fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Ósáttur minnihluti! F.v. Helga Jónsdóttir, Bergljót Kristinsdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Theódóra S. Þorsteinsdóttir og Indriði I. Stefánsson

Skref stígið afturábak

Theódóra S. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi Viðreisnar var ósatt hvernig fjárhagsáætlun Kópavogs var unnin í ár og lagði fram bókun þar sem hún tekur fram að bæjarstjórn Kópavogs hafi þó nokkur undanfarin ár unnið að þverpólitískri, sameiginlegri og stefnumarkandi fjárhagsáætlun þar sem aðgerðaráætlanir eru lagðar til grundvallar. Með því sammæli allra kjörinna fulltrúa og starfsmanna, hefur verið tryggður faglegur og skilvirkur rekstur sveitarfélagsins. ,,Slík vinnubrögð gera það að verkum að hægt er að fylgja langtímastefnu sem byggir á skýrum markmiðum þar sem unnt er að mæla árangur. Búið er að móta nýja heildarstefnu fyrir öll svið og stofna nýtt fjármálasvið sem gefur skýrari og öruggari upplýsingar til að taka faglegar ákvarðanir. Á síðasta ári hafði stefnan einnig verið sett á að bæta vinnubrögð við opinber innkaup eftir að Kópavogsbær fékk ekki bara afleita einkunn í útttekt heldur í raun falleinkunn.

Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er hér að stíga skref aftur á bak í vinnubrögðum við gerð þessarar áætlunar. Það eru mér mikil vonbrigði því sveitarfélagið hefði svo sannarlega þörf á áframhaldandi framþróun. Gamla skammtíma- og óskilvirka loforðapólitíkin ræður nú aftur ríkjum í Kópavogi. Undirrituð vill ekki þátt í þeirri þróun og lýsir yfir vonbrigðum með fjárhagsáætlun sem hér er til afgreiðslu, bæði að formi og innihaldi, og sit því hjá við afgreiðsluna,” segir Theódóra í bókun sinni.

Harma afturför í vinnubrögðum

Indriði I. Stefánsson bæjarfulltrúi Pírata tók í sama streng og Theódóra. ,,Píratar í Kópavogi harma afturför í vinnubrögðum við gerð fjárhagsáætlunar Kópavogsbæjar, sem nú í ár er ekki unninn í samvinnu allra flokka, ólíkt því sem verið hefur undanfarin sjö ár. Nýjar aðgerðir í aðgerðaáætlunum næsta árs eru ekki rökstuddar með vísan í mat á árangri áætlana síðasta árs, líkt og lagt var upp með í þverpólitískri sátt með stefnumiðaðri vinnu. Þess í stað var málefnasamningur meirihlutaflokkanna nú lagður til grundvallar, áður en minni-hlutaflokkarnir fengu svo mikið sem sæti við borðið. Með þessum hætti útilokuðu fulltrúar meirihluta hina flokkana frá því að hafa raunverulega aðkomu að vinnunni. Fyrir utan það að samvinna þvert á flokka er bæði lýðræðislegri og líklegri til þess að skila betri og sanngjarnarni útkomu sem meiri sátt ríkir um, er það fyrst og fremst sorglegt að sjá fjara undan gagnadrifinni ákvarðanatöku. Þeirri hugsun að taka upplýstar ákvarðanir byggðar á rökum og horfa til lengri tíma en fjögurra ára í senn,” segir í bókun Indriða.

Aðalmynd: Bæjarstjórn Kópavogs 2022

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar