Ýmsar stjórstjörnur troða upp á þjóðhátíðardaginn í Kópavogi

Haldið verður upp á 17.júní á fimm stöðum í Kópavogi í ár, við Menningarhúsin, Fífuna, í Fagralundi, við Salalaug og Kórinn.

Vegleg skemmtidagskrá er á öllum stöðum, leiktæki, hoppukastalar, andlitsmálning og sölubásar. Frítt er í öll leiktæki.

Hátíðarsvæðin opna klukkan 12.00 og eru opin til 17.00. Það er því hægt að fara í leiktæki og hoppukastala strax á hádegi eða gera góð kaup í sölubásunum sem eru fjáröflunarleið íþróttafélaga bæjarins.

Hátíðardagskrá hefst svo klukkan 14.00 nema við Menningarhúsin þar sem hún hefst kl. 13.30.
Hátíðarstjórar eru þau Vilhelm Anton, Lína langsokkur, Leikhópurinn Lotta, Saga Garðars & Snorri Helgason og Eva Ruza & Hjálmar Örn og munu þau halda uppi góðu stuði og stýra dagskrá sem fram fer á svæðunum.

Ýmsar stórstjörnur troða upp en meðal annars Bríet

Ýmsar stórstjörnur troða upp en meðal listamanna sem koma fram eru: Bríet, Birnir, Regína & Selma, Guðrún Árný, Hr.Hnetusmjör og Reykjavíkurdætur.

Þá mun nýr bæjarstjóri Kópavogs, Ásdís Kristjánsdóttir, ávarpa gesti.

Tvær skrúðgöngur verða í tengslum við 17.júní. Ein sem leggur af stað frá MK klukkan 13.00 og gengur sem leið liggur að Menningarhúsunum. Önnur leggur af stað frá Hörðuvallaskóla kl. 13.30 og gengur upp í Kór. Skólahljómsveit Kópavogs leikur undir í skrúðgöngunum.

Þjóðhátíðarlag Kópavogs með Góa og Skólakór Kársnesskóla hefur slegið í gegn

Hátíðarlagið slær í gegn

Bryddað var upp á þeirri nýbreytni í ár að semja lag í tilefni hátíðarhaldanna og er það Gói sem samdi lagið og flytur ásamt Skólakór Kársnesskóla. Lagið hefur hlotið mjög góð viðbrögð og framtakið mælst vel fyrir. „Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og hvet ég íbúa og aðra hátíðargesti til að hlusta á lagið til að koma sér í góða stemningu fyrir 17.júní. Ekki er verra að taka undir, það er aldrei að vita nema lagið heyrist á þjóðhátíðardaginn,“ segir Gói, sem er bæjarlistamaður Kópavogs í ár.

  1. júní um allan Kópavog
    Dagskrá í Kórnum, dagskrá í Fagralundi, dagskrá í Versölum og Fífunni
    Við Menningarhúsin, um allan Kópavogs
    Skemmtum okkur sama og hó
    Dagskrá frá fjórtán til sextán
    Líf og fjör sem enginn vill vera án
    Hæ hó og jibbí jæ jei hey hey
    Fögnum saman tra la lal lei.
    Það verður stuð og stemmari um allan Kópavog á 17.júní.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar