Skólaárinu í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ lauk laugardaginn 28.maí með brautskráningu 117 nemenda, þar af 111 stúdenta. Aldrei hafa fleiri útskrifast frá skólanum, sem hóf starfsemi sína árið 1984 og fagnar því 40 ára afmæli árið 2024, eftir tvö ár.
Skólaárið einkenndist af sveiflum og ýmiskonar áskorunum fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Ástæðan er jú auðvitað heimsfaraldur sem kallast ,,kóvid19“.
Á tímabili voru bæði margir nemendur og starfsmenn frá vinnu vegna veikinda og talsvert var um fjarnám og ,,zoom-kennslu“ eins og hún er kölluð. Kom þetta þó ekki í veg fyrir að haldið var uppi almennri kennslu með aðstoð nýjustu tækni.
Þegar kom að vorönn, sem hófst í lok febrúar, var ástandið orðið nokkurn veginn eðlilegt og þá fór félagslíf skólans af stað á ný, með böllum og leiksýningu og fleiru, enda uppsöfnuð .öf nemenda til staðar.
Á Imbru-dögum var haldin árshátíð og þá var einnig söngleikurinn Grettir frumsýndur, en það var einmitt fyrrum nemandi skólans, Örn Gauti Jóhannsson, sem stýrði leikhópnum.
Á vorönn var einnig blásið til viku gegn fordómum, en sér myndband með sögum um fordóma var sýnt, ljóð voru samin, tónleikar haldnir og blásið var til plakatkeppni.
Þá sýndi Bjarni Snæbjörnsson, fyrrum leiklistarkennari skólans, eigið leikverk, Góðan daginn faggi, fyrir alla nemendur.
Undir lok annar voru síðan bæði myndlistar og leiksýningar í gangi á vegum nemenda skólans. Þá tóku nemendur einnig þátt í nýsköpunarkeppni og eitt liðið (fyrirtæki) vann til verðlaun sem besta matvælafyrirtækið
Á skólaárinu tók lið FG þátt í Gettu betur og náði að lokum öðru sæti eftir harða viðureign við MR, en þetta var næst besti árangur FG í keppninni, skólinn vann árið 2018.
Vorönn var því ,,eðlileg“, skólabragurinn með hefðbundnu sniði undir lok skólaárs og fjölmargt að gerast, enda FG einn stærsti vinnustaður bæjarfélagsins.
FG er skóli fjölbreytileika og umburðarlyndis
Kristinn Þorsteinsson, skólameistari kom víða við í ræðu sinni við brautskráningu þann 28.maí síðastliðinn. Og eins og fram kemur hér á síðunni var haldin sérstök fordómavika í FG á vorönninn. Í ræðu sinni sagði Kristinn að FG væri skóli sem hefði fjölbreytileika og umburðarlyndi að leiðarljósi. ,,Mannlífið er fallegra, skemmtilegra og litríkara þegar fjölbreytileikinn fær að njóta sín,“ sagði Kristinn meðal annars. Sér til stuðnings vitnaði hann í ljóð eftir óþekktan nemanda sem birt var í forómavikunni og hljóðar svo:
Mér fannst ég bara mjög eðlileg
Mér fannst ég vera sæt og falleg
Mér líður vel í líkamanum mínum
Mér er sama hvað annað fólk segir
Fordómar eru eins og hefnd
Fyrir eitthvað sem þú gerðir ekki
Fordómar slökkva á ljósi þínu
Þér fannst þú vera eðlileg en ekki lengur
Á sérstökum tónleikum sem haldnir voru Urðarbrunni í fordómavikunni komu fram; GDRN, Frikki Dór og Garðbæingurinn Jói P, ásamt félaga sínum, Króla.
Forsíðumynd: Verðandi, leikfélag NFFG, sýndi söngleikinn Gretti á vordögum við góðar undirtektir.