Vinnum þetta saman og látum verkin tala

Kæru Kópavogsbúar,

Ég býð fram krafta mína og óska eftir ykkar stuðningi í 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í forvali flokksins þann 12. mars nk. hér í Kópavogi.

Mínar helstu áherslur eru, eins og hjá öllum sem gefa kosta á sér í svona verkefni, almenn velferð bæjarbúa. Það er gaman að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi hefur að skipa mörgum áhugasömum og kraftmiklum frambjóðendum og er ég stoltur af því að fá að vera hluti af þeim hópi. Ég er viss um að flokkurinn á eftir að mynda góðan, öflugan og sterkan lista fyrir kosningarnar í vor.

Ég vil sjá okkur vinna að því að leikskólapláss verði ekki vandamál en það er verkefni sem unga fólkið þarf virkilega á að halda að unnið verði að. Þá væri gaman ef við gætum unnið að því að færa tónlistar- og almennt listnám meira inn í grunnskólana svo börnin okkar geti unnið að þeim verkefnum á sama stað og önnur félagsstörf. Jafnframt þurfum við að halda vel utan um allt íþróttastarf og handa áfram að styðja við það frábæra starf sem íþróttafélög bæjarins hafa byggt upp.

Þá á að vera forgangsverkefni að byggja upp sterka sjálfsmynd hjá unga fólkinu en ég tel það vera besta forvarnarstarfið sem við getum unnið. Við verðum einnig að vera þeim góð fyrirmynd, það er oft þannig að þau hlusta ekki alltaf á það sem við segjum en þau sjá hvað við gerum og hvernig við gerum það.

Bærinn okkar þarf að passa upp á að hafa pláss og rými fyrir allar gerðir af fjölskyldum og geta boðið upp á möguleika á fjölbreyttu húsnæði hvort sem það er til leigu eða eignar. Sumir vilja búa stórt en aðrir vilja smærra og þegar við eldumst þá þurfum við að gæta að því að þeir sem vilja búa heima geti átt þess kost. Við viljum því að hafa fjölbreytt úrræði og eitthvað fyrir alla.
Til að þetta gangi upp er best að vinna að þessum úrræðum með þeim sem þjónustuna nota.

Við getum gert gott samfélag enn betra með því að halda áfram að hafa ábyrga fjármálastjórn en hún hefur verið til fyrirmyndar hjá bænum okkar undanfarin ár.

Rúnar Ívarsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar