Hvernig getur Kópavogsbær stuðlað að farsælum efri árum íbúa?

Á næstu mánuðum stendur yfir kosningabarátta vegna sveitarstjórnarkosninga hér í Kópavogi. Sjálfsagt erum við öll með mismunandi gleraugu þegar við ákveðum hvaða málefni okkur þykja mikilvægust í sveitarstjórnarmálum. Meðal þeirra mála sem ég vil leggja áherslu á eru málefni eldriborgara. Við getum öll verið sammála um að það er alltaf hægt að gera betur. Við getum haft áhrif á það að hér eigi íbúar góð efri ár! 

Lífslíkur á Íslandi eru með þeim hæstu í Evrópu og flest bendir til þess að sú þróun haldi áfram. Við þurfum að fylgjast með þróuninni og vera undirbúin fyrir þær miklu samfélagslegu breytingar sem þeim fylgja. Horfum fram í tímann og hugum að þessum þáttum þegar kemur að skipulagsmálum bæjarins.
Við verðum að leggja áherslu á einstaklingsmiðaðri þjónustu og stuðla að því að eldra fólk geti búið sem lengst á sínu eigin heimili. Það þarf að stefna markvisst að því að fjölga hér íbúum sem búa við góða heilsu og styrkja aðra þætti sem hámarka lífsgæði þeirra.

Heilsuefling er mikilvæg

Ég trúi á mátt heilsueflingar. Bætt heilsa eldra fólks hefur ekki einungis jákvæð áhrif á einstaklingana sjálfa heldur stuðlar hún einnig að því að eldra fólk getur búið lengur á eigin heimili. Regluleg hreyfing eldra fólks hefur margþætt gildi. Hún styður til að mynda við heilbrigða lifnaðarhætti, spornar gegn ýmsum heilsukvillum, stuðlar að bættri andlegri og líkamlegri heilsu ásamt því að ýta undir félagsleg samskipti.

Fræðum eldra fólk um hvaða þjónusta og aðstaða er í boði hér í Kópavogi. Verkefnið Virkni og vellíðan hefur vakið mikla ánægju meðal íbúa en það er samstarfsverkefni þriggja stærstu íþróttafélagana í bænum. Markmið verkefnis er að auka heilsueflingu eldra fólks undir handleiðslu íþróttafræðinga. Með þátttöku má draga úr öldrunareinkennum og stuðla að því að einstaklingar geti sinnt daglegum athöfnum lengur og eigi þannig kost á því að búa sem lengst á eigin heimili. Þetta verkefni vil ég sjá stækka enn frekar og ná til fleiri íbúa. Við eigum að taka virkan þátt í heilsueflingu eldra fólks. Sveitarfélagið okkar býr svo vel að vera með þeim flottustu íþróttaaðstöðu landsins. Þar má nefna sem dæmi inniaðstöðu í Kórnum og Fífunni þar sem æfingar á vegum verkefnisins fara fram. 

Það er ljóst að við höfum tækifæri til að vinna að markvissari og betri forvörnum í þessum málaflokki. Með markvissum aðgerðum sem stuðla að hreyfingu og heilsueflingu eldra fólks hér í Kópavogi eru meiri líkur á að við fjölgum hér íbúum sem búa við góða heilsu og aukin lífsgæði. Því meiri lífsgæði sem þessi hópur nýtur, því minni kostnaður fellur til vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu. Það vinna allir ef vel tekst til, einstaklingarnir, bærinn okkar og samfélagið í heild!
 
Ég vil vinna efla enn frekar fræðslu og forvarnarstarfi meðal eldri borgara.
Ég vil bæta enn frekari þjónustu við eldri borgara með einstaklingsmiðaðri nálgun.
Ég vil efla og samþætta til muna þjónustu á vegum félags og íþrótta. 
Hlustum á raddir eldri borgara og mætum þeim að verðleikum.

Hanna Carla Jóhannsdóttir sækist eftir 5. – 6. Sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar