Yngstu sýningastjórar landsins?

Síðan í janúar hafa þær Lóa, Vigdís, Íva, Freyja Lóa og Fjóla Kristín hist reglulega í Gerðarsafni til að undirbúa fyrstu sýningu Vatnsdropans, samstarfsverkefnis norrænna menningarstofnana þar sem sígildar barnabókmenntir eru tengdar Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í gegnum fjölbreytta viðburði.

Sýningin sem opnar í Gerðarsafni 19.júní ber heitið „Sjórinn er fullur af góðum verum. Sjórinn er fullur af rusli.“ og samanstendur af verkum frá H. C. Andersen-safninu í Óðinsvéum, Múmínálfasafninu í Tampere og Undraheimi Ilons í Haapsalu í Eistlandi, auk verka eftir sýningarstjórana sjálfa.

Í löndunum fjórum eru í allt 13 ungir sýningarstjórar sem vinna að verkefninu, en í aðdraganda sýningarinnar hafa þau meðal annars skrifað sögur, málað myndir, valið úr myndir frá söfnunum til að hafa á sýningunni og unnið að sýningarhönnuninni í samstarfi við hönnuðinn Heimi Sverrisson.

Lóa tíu ára í Kársnesskóla
Vigdís Una tíu ára í Kársnesskóla
Freyja Lóa tíu ára í Kópavogsskóla
Fjóla Kristín tólf ára í Vatnsendaskóla
Iva þrettán ára í Hörðuvallaskóla

Af hverju eruð þið ungir sýningarstjórar, hvernig gerðist það?
Lóa:
Ég frétti af verkefninu og fannst þetta rosalega merkilegt og sniðugt. Mér finnst gaman að lesa bækur og að kynna mér þessa rithöfunda.
Vigdís: Ég sá auglýsingu í Kópavogsblaðinu, sótti um og komst inn og þetta er bara mjög skemmtilegt.
Freyja: Ég sá líka auglýsingu. Mér finnst mjög gaman að teikna og langaði að vera með.
Fjóla: Mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Ég vissi auðvitað ýmislegt um mengun og hafið en auglýsingin fékk mig til að hugsa betur um það og langa að kynna mér þetta betur.
Iva: Ég sótti um af því ég hef mjög mikinn áhuga á list og ég vissi að við værum að fara að vinna eitthvað með list. En mig langaði líka að vita meira um hvað gerist þegar fólk hendir ruslinu í hafið.

En nú snýst þetta dáldið um barnabækur líka, er það ekki?
Lóa:
Jú, þetta erum sjóinn og rithöfunda og bækur frá Norðurlöndunum
Vigdís: Við skoðuðuðm bækur eftir HC Andersen, Tove Jansson og Astrid Lindgren og nokkrar teikningar úr bókunum þeirra verða á sýningunni sem tengjast þessu efni.
Freyja: Þessir höfundar hafa skrifað bækur sem tengjast vatni, annaðhvort gerast í vatninu eða nálægt vatni í eða sjó.

Og hvenær verður svo sýningin?
Vigdís:
Sýningin opnar 19. Júní eftir að hafa verið frestað nokkrum sinnum. Hún er samansett úr myndum eftir okkur sem við teiknum eftir sögum sem við skrifuðum um sjóinn og ruslið og allt það.
Fjóla: Við erum að reyna að sýna hvað jörðin og náttúran er ótrúlega falleg og hvað við erum að eyðileggja með því að menga hana alltaf meira og meira.
Vigdís: Við viljum eiginlega ekki segja meira, fólk verður bara að koma á sýninguna.
.
Hvað vonið þið að fólkið sem sér sýninguna upplifi?
Lóa:
Ég vona að það segi: ó, æi ég hefði átt að klippa plastið áður en ég henti því í ruslið og einhver fiskur festist í því.
Freyja: Ég vona að hún hvetji fólk til að leggja sitt af mörkum.
Iva: Sýningin heitir: „Sjórinn er fullur af góðum verum. Sjórinn er fullur af rusli.“ og við vonum að fólk vilji vinna með okkur í því að vernda verurnar fyrir ruslinu.

Mynd: Ungir sýningastjórar á Íslandi! Frá vinstri: Íva Jovisic, Freyja Lóa Sigríðardóttir, Vigdís Una Tómasdóttir, Lóa Arias og Fjóla Kristín Sveinbjörnsdóttir. Mynd: Sigga Ella

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar