Niðurstöður dómnefndar úr hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla í Urriðaholti í Garðabæ voru kynntar við hátíðlega athöfn í Sveinatungu á Garðatorgi þriðjudaginn 8. júní sl.. Samkeppnin var hönnunarsamkeppni, opin öllum sem uppfylltu skilyrði samkeppnislýsingar og var haldin í samstarfi Garðabæjar og Arkitektafélag Íslands. Undirbúningur fyrir samkeppnina hófst á síðasta ári, keppnin var auglýst í byrjun þessa árs og alls bárust tíu tillögur.
Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Nýi leikskólinn verður staðsettur við Holtsveg, neðan götu þar sem lóð opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að vatninu og Kauptúni. Áætluð heildarstærð leikskólans er um 1.400 m² og stefnt er að því að byggingin verði vistvottuð. Nýi leikskólinn í Urriðaholti verður 6 deilda leikskóli fyrir allt að 120 börn frá 1 árs aldri. Byggingarframkvæmdir við leikskólann hefjast á þessu ári og gert ráð fyrir að leikskólinn taki til starfa á árinu 2022.
Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring. Urriðaholt var fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags samkvæmt vottunarkerfi ,,BREEAM Communities“ sem er ætlað að tryggja lífsgæði og umhverfisvernd með vistvænu skipulagi byggðarinnar. Sjálfbærar ofanvatnslausnir eru í hverfinu sem eru fyrstu sinnar tegundar í íbúabyggð á landinu. Þó að stutt sé í náttúruna úr Urriðaholti liggur hverfið vel við í góðar samgönguæðar.
Tillaga sem leysir viðfangsefni á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist
Dómnefnd leitaði einkum eftir snjöllum hugmyndum með það að meginmarkmiði að finna tillögu sem leysti viðfangsefnið á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist. Einnig var horft til áhersluatriða sem komu fram í samkeppnislýsingu eins og hugmyndafræði, hönnun útisvæðis og umhverfis, sjálfbærni og kostnaðargát, hvernig skólinn og umhverfið væri hannað til að uppfylla sem best væntingar til leiks, náms, velferðar og aukins þroska barna.
Ákveðið var að veita þremur tillögum verðlaun og einni tillögu viðurkenningu með innkaupum. Í fyrsta sæti var tillaga HuldaJóns Arkitektúr, sastudio og exa nordic. Í öðru sæti var tillaga N7a-nikolova/aarsø, TEARK, einrúm arkitektar/einrum-ffw og IKT-LEDERNE ApS. Í þriðja sæti var tillaga Sei Studio, Landmótun og Ríkharður Kristjánsson / RK Design. Tillaga KRADS / Andrew Burgess var veitt viðurkenning með innkaupum til sérstakrar skoðunar.
Í dómnefnd samkeppninnar sátu tilnefndir af Garðabæ: Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar, Hrefna Gunnarsdóttir, deildarstjóri í Urriðaholtsskóla og Kristjana Fjóla Sigursteinsdóttir, formaður leikskólanefndar Garðabæjar. Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands voru Freyr Frostason, arkitekt FAÍ, THG-Arkitektar og Sigurður Einarsson, arkitekt FAÍ, Batteríið Arkitektar. Ritari dómnefndar var Arinbjörn Vilhjálmsson arkitekt, skipulagsstjóri Garðabæjar og trúnaðarmaður samkeppninnar var Helga Guðjónsdóttir starfsmaður AÍ.
Tillögurnar verða til sýnis næstu vikur á innitorginu á Garðatorgi 7, fyrir utan Sveinatungu rétt hjá Bókasafni Garðabæjar. Jafnframt er hægt að skoða allar tillögurnar á vef Garðabæjar, gardabaer.is.
Umsögn um vinningstillöguna
Umsögn dómnefndar um tillöguna sem hlaut fyrstu verðlaun er eftirfarandi: ,, Tillagan Urriðaból er heilstæð bygging með skemmtilegu uppbroti í formi sem skapar minni kvarða. Þá sýnir tillagan 5 mismunandi húshluta sem eru með mismunandi hæð og gefur yfirbragð húsaþyrpingar og telur dómnefndin það mikinn kost. Heildarmynd hússins er í takt við deiliskipulag Urriðaholts og sýna útlitsmyndir hvernig byggingin fellur vel að umhverfi og byggingum í næsta nágrenni. Þá skyggir byggingin ekki á útsýni nærliggjandi íbúðarhúsa. Lega hússins í lóð er nokkuð neðarlega og eru bæði tröppur og rampar frá bílastæðum að jarðhæð leikskólans og er húsið nánast hæð neðar en hæðarkóti við götu. Þennan hæðarmismun mætti mýkja og vinna betur.
Útlit leikskólans er vel leyst með mismunandi klæðningum úr áli og timbri með misstórum gluggum, glerflötum og gróðurhúsi við inngang og þykir flæðið í húsinu einstaklega vel leyst.
Leikskólinn er vel skipulagður. Gert er ráð fyrir tveimur inngöngum á jarðhæð sem er jákvætt til að dreifa umferð fólks á háannartíma. Þá er aðkoma að deildum góð og vel rúmt fyrir börnin fyrir framan hverja deild. Endurskoða mætti staðsetningu syðri inngangs þannig að hann þjóni betur starfseminni. Deildirnar eru allar á jarðhæð með góðum tengslum við útisvæði, þó mætti bæta inn rennihurðum beint út á leiksvæði þar sem því verður við komið. Aðkoma vörumóttöku er vel staðsett og aðkoma starfsmanna vel leyst ásamt þjónustu og bakrýmum. Dómnefndinni hugnaðist vel að hafa miðjusettan fjölnotasal í góðum tengslum við gróðurhús og eldhús. Tengigangur leikskólans býður upp á opin og skemmtileg rými með salnum, inngöngum, bókasafni o.fl.
Sjálfar deildirnar eru sannfærandi í hönnun og bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika þar sem hvíld og leikur getur átt sér stað í sama rými eftir þörfum. Skoða þarf hvort skipta mætti yngstu deildum í þrjú svæði. Þá er það kostur að hafa starfsmannaaðstöðuna aðskilda og á annari hæð. Þar skapast góður vinnufriður fyrir starfsmenn með vel leystri kaffistofu sem er með aðgengi út á þakgarð.
Yfirbragð hönnunar innanhúss er hlýlegt og uppfyllir kröfur um vistvænar lausnir.
Lóðin er nokkuð vel leyst og sýna útlitsmyndir skemmtileg form og liti í sambland við náttúruleg efni og gróður. Þá er gert ráð fyrir matjurtargarði í tengslum við leiksvæðið. Mikill kostur þykir að hafa útisvæðið heilstætt og í svipaðri hæð og er útisvæði yngstu deildar aðskilið og vel leyst. Hönnun lóðar þykir lifandi og litrík en á sama tíma er hún örugg og góð yfirsýn er fyrir starfsmenn leikskólans yfir útileiksvæðið.
Skoða mætti að trappa lóðina aðeins til að lyfta húsinu og milda hæðarmismun við bílastæði og aðkomu að leikskólanum.
Tillagan er í alla staði vel unnin. Hönnun leikskólans og lóðar þykir einstaklega vel heppnuð og var það einróma álit dómnefndar að veita henni 1. verðlaun.”