Allir vegir færir

Það er fallegt um að litast í bæjunum okkar. Úti er bjart og hlýtt á sama tíma og birtir til í samfélaginu öllu. Bólusetningar ganga vel, hagur fyrirtækja vænkast og atvinnuleysi dregst hratt saman. Eftir langan og erfiðan vetur sjáum við loks fram á betri tíma. Heimsfaraldurinn hefur verið áskorun á sviði stjórnmálanna, eins og annars staðar í samfélaginu. Við þurftum að bregðast hratt við vorið 2020, taka stórar ákvarðanir á stuttum tíma, verja heilsu landsmanna og halda sjó í efnahagsmálum.

Við getum lært margt af verkefninu sem við fengum í fangið, en heilt yfir má fullyrða að okkur hafi gengið vel. Ábyrg hagstjórn síðustu ár gerði okkur kleift að bregðast við af krafti þegar á þurfti að halda. Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst í fyrra þrátt fyrir faraldurinn og innlend eftirspurn hélst sterk. Áfram mætti lengi telja. Stærsta verkefni næstu mánaða er að vinna á atvinnuleysinu, en þar fer viðsnúningurinn hratt af stað.

Lýðræðið í forgrunni

Eftir viðburðaríkt kjörtímabil göngum við svo til kosninga í haust. Við verðum þar með fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin til að starfa heilt kjörtímabil. Samstarfið hefur gengið vel, fjölmörg mikilvæg mál komist til leiðar og lífskjör haldið áfram að batna hröðum skrefum. Við höfum góða sögu að segja.

Venju samkvæmt er það undanfari kosninga að stilla upp framboðslistum. Í Sjálfstæðisflokknum veljum við á lista með lýðræðislegum hætti í prófkjörum um land allt. Tugir öflugra einstaklinga úr öllum áttum hafa boðið sig fram til að vinna samfélaginu gagn undir merkjum flokksins á nýju kjörtímabili. Prófkjörum er þegar lokið í fjórum kjördæmum, en listarnir eru þétt skipaðir góðu fólki sem við getum verið stolt af.

Tökum þátt

Næstu þrjá daga fer fram prófkjör hér í Suðvesturkjördæmi, en þar eru á annan tug framúrskarandi frambjóðenda. Það er sannarlega ekki sjálfgefið að svo margt gott fólk sé tilbúið að leggja á sig kosningabaráttu og allt sem henni fylgir fyrir flokkinn okkar.

Hópurinn er fjölbreyttur, hvort sem litið er til aldurs, kyns eða fyrri reynslu. Þar eru bæði reyndir þingmenn og ný andlit, sem vilja láta til sín taka á Alþingi. Breiddin í hópnum endurspeglar fjölbreytnina í flokknum, en öll eiga þau sameiginlegt að vilja byggja hér enn öflugra samfélag og vinna að framgangi Sjálfstæðisstefnunnar.

Ég hvet allt Sjálfstæðisfólk eindregið til að taka þátt í prófkjörinu næstu daga. Næstu misseri skiptir öllu máli að okkar stefna ráði áfram för og með sigurlið á lista í hverjum landshluta verða okkur allir vegir færir.

Bjarni Benediktsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar