Nú nálgast prófkjör Sjálfstæðisflokksins óðfluga hér Kraganum. Ég óska eftir stuðningi ykkar í þriðja sæti listans.
Um glæsilegan frambjóðendahóp er að ræða og sýnir hann hversu auðugur flokkurinn er af fólki.
Við erum að komast saman úr kófinu. Það er loks ljós handan ganganna og undanfarið ár hefur verið erfitt, bæði einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum. Ríkisstjórnin tók strax mikilvægar ákvarðanir í faraldrinum til að vernda atvinnulífið og hlúð var að viðkvæmum hópum með fjölmörgum aðgerðum. Fyrir þetta erum við þakklát en framundan eru miklar áskoranir.
Fyrirtæki eru að koma misvel undan fárinu. Mörg þeirra þurfa að glíma við uppsafnað tap undanfarinna mánaða og jafnvel ára, og slík uppbygging getur tekið tíma. Á síðasta ári var einnig ákveðið að stytta vinnuvikuna og bæta launakjör. Það má því segja að fyrirtæki þurfi að takast á við tvenns konar áskoranir næstu ár og mánuði.
Það á að vera ein af frumskyldum stjórnmálamanna í dag að skapa fyrirsjáanleika í rekstarumhverfi fyrirtækja og gæta að því að skattlagning og álögur séu hóflegar. Í stefnu Sjálfstæðisflokksins birtist sú stefna að ef skrúfað er fyrir súrefni fyrirtækja til þess að starfa, verður einfaldlega enginn grundvöllur fyrir velferðarkerfi sem á að styðja við okkar viðkvæmustu hópa.
Álag á velferðar og heilbrigðiskerfinu birtist víða. Biðlistar eftir mikilvægum aðgerðum lengjast úr hófi, illa gengur að koma ungmennum í bráðum vanda inn á BUGL, fjöldi þeirra sem taka sitt eigið líf því miður eykst, eldra fólk einfaldlega kemst ekki inn á hjúkrunarheimili þrátt fyrir háan aldur og slæma heilsu. Einnig hefur átt sér stað fjölgun í tilkynningum til barnaverndar og þyngd málanna hefur aukist. Sveitafélögin finna þetta aukna álag glöggt í gegnum stýringu á grunn- og leiksskólum sem og aukinni velferðarþjónustuþörf.
Það er því í mörg horn að líta næstu árin í stjórnun ríkisfjármála um leið og það er brýnt að ná niður skuldum ríkissjóðs. Til þess að vel gangi þá þarf Sjálfstæðisflokkurinn að hafa sæti við ríkisstjórnarborðið núna og næstu ár.
Þingmenn eiga að berast fyrir einföldu og gagnsæu regluverki fyrir fólk og fyrirtæki, reyna eftir fremsta megni að draga úr umfangi ríkisreksturs, krefast aðhalds og ráðdeildar hjá stofnunum ríkisins ásamt því að hlúa að viðkvæmum hópum. Stjórnmálamenn eiga að hlusta á reynsluraddir í samfélaginu og um leið standa með sinni sannfæringu og þekkingu. Við getum ekki verið sammála öllum en það er heillavænlegt að vera alltaf tilbúin að hlusta og læra af reynslu annarra.
Þetta er ansi mjór stígur sem hér er dreginn upp en ég tel mig geta fetað hann og óska eftir stuðningi til þess.
Karen Elísabet Halldórsdóttir