Frelsið er yndislegt

Íslendingar eru í grunninn samheldin þjóð og þegar á reynir stöndum við saman og klárum verkefnin. Áskoranir komandi missera verða margvísleg og þar er einna stærst uppbygging og endurreisn atvinnulífsins. Þó svo áherslur milli flokka og fólks séu misjafnar viljum við í grunninn öll það sama, ,búa í samfélagi með sterka grunnþjónustu og sterka innviði. Það er því verkefni stjórnmálamanna að leiða saman ólíkar áherslur og ólíkar væntingar.

Ljóst er að flestir ef ekki allir landsmenn hafa lært það á eigin skinni í heimsfaraldrinum hversu dýrmætt frelsið er, sem einu sinni var okkur flestum svo sjálfsagt. Það er því fátt sem við þráum meira en frelsið til athafna, til að ferðast, til að hitta fólk og ekki síst geta gengið um götur og verslanir án þess að vera óttaslegin um afleiðingar þess. Landsmenn voru ekki allir sáttir þegar ferðafrelsi þeirra var skert þegar smitum fór að fjölga á landinu, þegar við þurftum að nota grímur eða þegar ferðafrelsi milli landa og landshluta var takmarkað. Fjöldi fólks lét í sér heyra og menn skiptust í fylkingar, með eða á móti. Mörgum fannst að ríkið ætti ekki að hefta frelsið og fannst að þeim þrengt. Aðgerðir voru nauðsynlegar en þarna fundu líklega margir hversu dýrmætt frelsið er.

Frelsi til að velja

Stjórnmálamenn eiga ekki að skerða frelsi fólks til athafna, hvorki með íþyngjandi regluverki eða afskiptasemi. Þeir eiga að treysta fólki og fyrirtækjum til að skapa vinnu og verðmæti og skapa skilyrði svo hugmyndir fólksins fái að vaxa og dafna. Þannig aukum við frelsi fólks, þannig styðjum við við nýsköpun og þannig fjölgum við möguleikum landsmanna til að velja, hvort sem það er í þjónustu í heilbrigðiskerfinu, fjölmiðlum, eða annarri þjónustu og þannig tryggjum við góða opinbera þjónustu því án blómlegs atvinnulífs er ekki hægt að bjóða upp á öfluga opinbera þjónustu, það segir sig sjálft.
Næstkomandi helgi ganga Sjálfstæðismenn inn í kjörklefann til að velja einstaklinga á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Það þarf sterka einstaklinga á þing landsmanna og sterka forystu til að leysa verkefni morgundagsins. Næsta kjörtímabil snýst um uppbyggingu á mörgum sviðum en umfram allt mun verkefnið vera að ná fram samheldni og krafti til að endurreisa allt það sem við höfum byggt upp áður.

Ég hvet íbúa Suðvesturkjördæmis til að taka þátt í að raða á lista Sjálfstæðisflokksins þann 10-12 júní. Ég er stolt af því að tilheyra stjórnmálaafli sem nýtir lýðræðið líkt og hann gerir nú ólíkt flestum öðrum flokkum og það er þess vegna sem ég býð fram krafta mína og sækist eftir 3. sæti á lista flokksins.

Kristín Thoroddsen bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði
Höfundur býður sig fram í 3 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem fram fer 10.-12. júní.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar