Markmiðið hjá Breiðablik er alltaf að vinna titla og það breytist ekkert í ár

Knattspyrnusumarið í Bestu deild kvenna er að hefjast á morgun, þriðjudaginn 25. apríl og einn af stóru leikjum sumarsins er strax í fyrstu umferðinni því þá mun Breiðablik fara í heimsókn á Hlíðarenda þar sem liðið leikur við Íslands- og bikarmeistara Vals. Þessi lið hafa löngum eldað grátt silfur saman enda nær undantekningarlaust barist um Íslandsmeistaratitilinn mörg undanfarin ár.

Það má þó segja að timabilið í fyrra hafi verið vonbrigðar ár fyrir Breiðablik þótt að liðið hafi endað í þriðja sæti Bestu deildarinnar og gert mjög vel í Meistaradeildinni, eða hvað segir fyrirliði Blika, Ásta Eir Árnadóttir, um það? ,,Já, ég er sammála því að tímabilið í fyrra hafi verið ákveðin vonbrigði. Markmiðið var alltaf að gera betur en að enda í 3 sæti, en þannig endaði það og við vorum ekki sáttar þegar tímabílinu lauk,” segir hún hreint út.”

Og hvernig finnst þér Breiðablik hafa brugðist við, hvernig líst þér á komandi tímabil fyrir hönd Breiðabliks? ,,Mér finnst hópurinn vera í góðu standi. Bæði leikmenn, þjálfarar og allt staff í kringum liðið eru að róa í sömu átt og með hugann rétt stilltann fyrir komandi tímabil.”

Hafa orðið miklar breytingar á liðinu á milli ára og telurðu að þið komið sterkari til leiks í ár en í fyrra? ,,Já, við höfum missta nokkra lykilleikmenn frá því í fyrra en á sama tíma höfum við stækkað hópinn og fengið til okkar mjög öfluga leikmenn. Blandan í hópnum er mjög góð, við erum með mix af ungum og efnilegum leikmönnum ásamt eldri og reynslumeiri sem mun nýtast öllum vel.”

Og ertu sátt með hvernig liðinu hefur gengið á undibúningstímabilinu, góður taktur búinn að vera í liðinu eða er það að slípast saman? ,,Undirbúningstímabilið hefur gengið bara nokkuð vel. Vildum ná lengra í Lengjubikarnum en heilt yfir erum við nokkuð sátt með frammistöðuna í leikjunum. Fórum líka í góða æfingaferð til Spánar þar sem við náðum að æfa vel og þjappa hópnum saman. Það mun held ég nýtast okkur vel inn í sumarið.”

Og hver eru markmiðin fyrir tímabilið? ,,Markmiðið hjá Breiðablik er alltaf að vinna titla og það breytist ekkert í ár.”

Nú er fyrsti leikurinn í Bestu deildinni á móti Íslands- og bikarmeisturum Vals nk. þriðjudag, 25. apríl. Þetta er klárlega einn af stóu leikjum sumarsins, hvað væntingar ertu með fyrir þann leik og hvað þurfið þið að gera til að skáka Valsliðinu við? ,,Við erum bara mjög spenntar að byrja á Hlíðarenda. Undanfarin ár hafa leikirnir við Val alltaf verið stórgóðir leikir og mikil skemmtun fyrir áhorfendur, ég efast ekki um að það breytist nokkuð núna. Valur er með hörkulið og marga frábæra leikmenn. Við þurfum bara að undirbúa okkur vel eins og fyrir alla aðra leiki og mæta þeim af fullum krafti.”

En má ekki segja að byrjunum hjá Breiðablik séu nokkuð snúin þar sem verið er að skipta um gervigras á Kópavogsvelli og þið leikið fyrstu fjóra leikina í mótinu á útivelli, á móti Val, Tindastóli, Keflavík og Þór/KA – þetta getur haft áhrif eða hvað? ,,Þetta er auðvitað engin óskastaða en við getum ekki látið svona hluti sem við höfum enga stjórn á trufla okkur. Þurfum bara að fókusa á stóra verkefnið og við getum ekki beðið eftir að spila fyrsta heimaleikinn á Kópavogsvelli,” segir Ásta.

Hvernig líst þér svo á nýtt fyrirkomulag í Bestu deild kvenna, nú verður úrslitakeppni eftir að deildarkeppninni lýkur þar sem fimm efstu liðin spila á móti hvort öðru í efri deild úrslitakeppninnar og 5 neðstu liðin í neðri deild keppninnar? ,,Mér líst bara ágætlega á þetta. Verður gaman að prófa eitthvað nýtt og já eins þú segir spila fleiri góða leiki verður skemmtilegt. Held að þetta gæti verið spennandi.”

En hvernig er staðan á liðinu nú nokkrum dögum fyrir mót, allar leikmenn heilir og hvað með fyrirliðann sjálfan, búin að vera með allt undirbúningstímabilið og klár í slaginn? ,,Staðan á liðinu er bara góð. Það eru 2-3 leikmenn að glíma við meiðsli en það styttist í þær. Ég sjálf er í góðu standi og get ekki beðið eftir að byrja mótið. Ég missti af helmingnum af tímabilinu í fyrra vegna meiðsla, þannig ég er búin að bíða spennt eftir að þetta byrji.”

Og þú ert s.s. spennt að mótið sé að byrja og vonast eftir góðum stuðningi, bæði á útivelli sem og á Kópavogs- velli? ,,Algjörlega. Við vonumst til að fólk fjölmenni á útileikina hjá okkur í fyrstu umferðunum, stuðningurinn er okkur mjög mikilvægur. Ég hvet svo fólk til að fylgjast með okkur í sumar, bæði heima á Kópavogsvelli og á útileikjunum. Áfram Breiðablik,” segir hún brosandi að lokum.

Mynd. Systurnar Ásta Eir til hægri og Kristín Dís.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar