Jazzþorpið í Garðabæ var opnað í gær með formlegum hætti með stuttu ávarpi frá Almari Guðmundssyni bæjarstjóra í Garðabæ og þorpsfógetanum Ómari Guðjónssyni.
Á eftir þeim steig jazzmeistarinn Þórir Baldursson á svið ásamt þeim Bjarna Sveinbjörnssyni, sem lék á bassa og Fúsa Óttarssyni er lék á trommur.
Svo tók hver viðburðurinn við af öðrum og skemmtu gestir sér vel enda þessi hátíð einstaklega vel heppnuð.
Ragnheiður Gröndal og Árabátanir – Konur og upphaf sveiflunnar, stíga svo á svið í kvöld kl. 20, en tónlist sem Ragnheiður mun flytja þekkja allir frá miðbiki síðustu aldar þegar fyrstu sveiflu-söngkonurnar litu dagsins ljós á Íslandi. Tónlist sem yljar, gleður og lyftir andanum. Með Ragnheiði verða þeir Guðmundur Pétursson á gítar, Haukur Gröndal á saxófón Birgir Steinn Theodórsson á kontrabassa og Erik Quick á trommur.
DJ-Ingibjörg Elsa Turchi verður svo á litla sviðinu frá kl. 22 og mun hún þeyta víniljazzplötum af einstakri snilld.
Jazzþorpið opnar svo klukkan 11. á morgun, sunnudag, en þá er frábær Chet Baker dagur framundan.
Sunnudagur 5. maí – Chet Baker dagurinn
Kl. 11– Þorpið opnar. Veitingasala og búðir, dagskrá á litla sviði frá 12-18:30
Kl. 12 – Silva og Steini flytja Chet Baker með sínu nefi Með þeim til halds og traust verða þeir Andri Ólafsson á kontrabassa og Matthías MD Hemstock á trommur.
Kl. 14.30 – Jazzspjall með Steingrími Teague Líf og list Chet Baker.
Kl. 15:30 – Ungir jazza Nemendur Tónlistarskóla Garðabæjar koma fram.
Kl. 18 – Úrslit Jazz-gettu-betur
Kl. 20 á stóra sviði – Bríet, GDRN, KK og Sigríður Thorlacius syngja Chet Baker ásamt hljómsveit Tómasar R. Í hljómsveit Tómasar verða þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Snorri Sigurðarson á trompet og Magnús Tryggvason Elíassen á trommur.
Góði hirðirinn er í samstarfi við Jazzþorpið í Garðabæ. Öll húsgögn og smámunir til sölu. Náttúruvín frá Vínstúkan Tíu Sopar, Kraftbjór frá Mói Ölgerðarfélag, Jazzkaffi frá Te&kaffi, Kristinn soð reiðir fram lauféttan mat. Lucky Records jazzplötubúð. Gítarsmiður að störfum og Antik hljóðfærabúð.