Jazzþorpið slær í gegn – flott dagskrá í kvöld og á morgun

Jazzþorpið í Garðabæ var opnað í gær með formlegum hætti með stuttu ávarpi frá Almari Guðmundssyni bæjarstjóra í Garðabæ og þorpsfógetanum Ómari Guðjónssyni.

Á eftir þeim steig jazzmeistarinn Þórir Baldursson á svið ásamt þeim Bjarna Sveinbjörnssyni, sem lék á bassa og Fúsa Óttarssyni er lék á trommur.

Svo tók hver viðburðurinn við af öðrum og skemmtu gestir sér vel enda þessi hátíð einstaklega vel heppnuð.

Ragnheiður Gröndal og Árabátanir – Konur og upphaf sveiflunnar, stíga svo á svið í kvöld kl. 20, en tónlist sem Ragnheiður mun flytja þekkja allir frá miðbiki síðustu aldar þegar fyrstu sveiflu-söngkonurnar litu dagsins ljós á Íslandi. Tónlist sem yljar, gleður og lyftir andanum. Með Ragnheiði verða þeir Guðmundur Pétursson á gítar, Haukur Gröndal á saxófón Birgir Steinn Theodórsson á kontrabassa og Erik Quick á trommur.

DJ-Ingibjörg Elsa Turchi verður svo á litla sviðinu frá kl. 22 og mun hún þeyta víniljazzplötum af einstakri snilld.

Það eru þau Ómar Guðjónsson þorpsfógeti og Ólöf Breiðfjörð menningarfulltúi Garðabæjar sem halda utan um Jazzþorpið sem hefur heldur betur slegið í gegn

Jazzþorpið opnar svo klukkan 11. á morgun, sunnudag, en þá er frábær Chet Baker dagur framundan.

Sunnudagur 5. maí – Chet Baker dagurinn

Kl. 11– Þorpið opnar. Veitingasala og búðir, dagskrá á litla sviði frá 12-18:30

Kl. 12 – Silva og Steini flytja Chet Baker með sínu nefi Með þeim til halds og traust verða þeir Andri Ólafsson á kontrabassa og Matthías MD Hemstock á trommur.

Kl. 14.30 – Jazzspjall með Steingrími Teague Líf og list Chet Baker.

Kl. 15:30 – Ungir jazza Nemendur Tónlistarskóla Garðabæjar koma fram.

Kl. 18 – Úrslit Jazz-gettu-betur

Kl. 20 á stóra sviði – Bríet, GDRN, KK og Sigríður Thorlacius syngja Chet Baker ásamt hljómsveit Tómasar R. Í hljómsveit Tómasar verða þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Snorri Sigurðarson á trompet og Magnús Tryggvason Elíassen á trommur.

Góði hirðirinn er í samstarfi við Jazzþorpið og hægt er að gera góð kaup á hátíðinni

Góði hirðirinn er í samstarfi við Jazzþorpið í Garðabæ. Öll húsgögn og smámunir til sölu. Náttúruvín frá Vínstúkan Tíu Sopar, Kraftbjór frá Mói Ölgerðarfélag, Jazzkaffi frá Te&kaffi, Kristinn soð reiðir fram lauféttan mat. Lucky Records jazzplötubúð. Gítarsmiður að störfum og Antik hljóðfærabúð.

Jazzmeistarinn Þórir Baldursson steig fyrstur á svið

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar