Boðið upp á utanvegahlaup í fallegu umhverfi- Stjörnhlaup VHE verður haldið laugardaginn 18. maí nk.

Hið árlega Stjörnuhlaup VHE verður haldið laugardaginn 18. maí nk., en fyrsta hlaupið var haldið árið 2013. Boðið verður upp á utanvegahlaup í fallegu umhverfi í landi Vífilsstaða og Heiðmörk og eru bæjarbúar hvattir til að taka þátt enda einstök hlaupaleið.

Tvær vegalengdir í boði Eins og í fyrra verður boðið upp á tvær vegalengdir, annars vegar 11 km hringur og hins vegar 22 km.

Eins og undanfarin ár er það hlaupahópur Stjörnunnar sem hefur umsjón með hlaupinu og Garðapósturinn skellti sér í hlaupaskóna ásamt Agnari Jóni Ágústssyni, verkefnastjóra hlaupsins, og spurði hann nánar um hlaupið.

Þið ætlið að halda ykkur við sömu hlaupaleið í fyrra og bjóða upp á utanvegahlaup í mjög skemmtilegu umhverfi við Vífilsstaði og Heiðmörk? ,,Já, við höldum okkur við sömu hlaupaleið og erum að festa hana í sessi. Þetta er mjög skemmtileg leið þar sem hlaupið er um Smalholtið, hjá golfvellinum í skóginum þar og yfir í Sandahlíðina fyrir ofan hesthúsin í Garðabæ. Afhverju þessi leið kom til er að við í Hlaupahópi Stjörnunnar höfum hlaupið mikið í gegnum tíðina í hlíðunum fyrir ofan Vífilsstaðavatnið. Svo kom nýlega nýr malarstígur þarna í Grunnvatnsskarði og okkur fannst tilvalið að bjóða upp á hlaup í þessari fegurð. Þegar farið er eftir nýja stígnum í Grunnvatnsskarði í vesturátt að Vífilsstaðavatni og áður en farið er niður að Vífilsstaðavatni, er útsýni í vestur ægi fagurt. Á góðum degi blasir Snæfellsjökullinn við og Vífilsstaðavatnið. Hlaupaleiðin hefur þegar fest sig í sessi og kallast nú Stjörnuhlaupsleiðin í hlaupasamfélaginu,” segir Agnar Jón.

Utanvega almenningshlaup

Er þessi leið krefjandi eða geta allir verið með þrátt fyrir að þetta sé utan-vegahlaup? ,,Utanvegaleiðir eru meira krefjandi en malbikið. Það er hlaupið um holt og hæðir í Heiðmörk en stígarnir eru þjappaðir og malarstígarnir einnig. Stjörnuhlaupið er utanvega almenningshlaup og það ættu allir að geta farið leiðina á sínum hraða. Margir ganga upp hlíðarnar og ekkert að því. Helmingur af leiðini er í hækkunarferli til að byrja með en allt eftir sjötta kílómetra er lækkun að Miðgarði þar sem ræst er.”

En eru einhver tímamörk í hlaupinu? ,,Hlaupið byrjar kl. 10:00 og tímataka hættir kl. 14:00. Þeir sem skrá sig 11 km og myndu ganga hlaupaleiðina, gætu klárað hana á 2 – 2 ½ klst. Þannig að allir þeir sem eru óvanir hafa rúman tíma til klára hlaupið. Það er alls ekki svo að Stjörnuhlaupið sé fyrir ofurhlaupara. Garðabær er einn af okkar helstu bakhjörlum sem styður við lýðheilsumál í bænum okkar. Þannig að þetta hlaup er almenningshlaup fyrir Garðbæinga og aðra sem vilja hafa gaman og njóta í náttúrunni.”

Og það hefur ávallt verið góð stemmning í hlaupinu og hlauparar voru mjög ánægðir með þennan hlaupahring í fyrra? ,,Frá 2015 til og með 2022 var Stjörnuhlaupið haldið á götum innan bæjar- ins. Mikil ásókn hefur verið í náttúruhlaup hverskonar undanfarin ár og fyrra breytt-um við um kúrs og færðum hlaupið út í náttúruna. Þátttaka í fyrra var mjög góð og hlauparar voru mjög ánægðir með þennan hlaupahring. Ungir sem aldnir tóku þátt og skemmtu sér vel. Margir hlaupahópar á höfuðborgarsvæðinu koma í Garðabæinn og byrja við Miðgarð til að fara Stjörnuhlaupsleiðina eins og hún er orðin kölluð í hlaupasamfélaginu.”

Mynd frá stemmningsferð hlaupahópsins yfir Laugaveginn í fyrra sem farin var á tveimur dögum og gist í skála, en utanvegahlaup eru orðin vinsæl með þessum hætti. Ekkert mál að fá 50 manns til að fara yfir óbyggðir 55 km leið á tveimur dögum. Í hópnum voru hlauparar á öllum getustigum úr hlaupahópnum og sumir makar með í för.

Þurfa hlaupara að græja sig sérstaklega upp fyrir utanvegahlaupin þ.e.a.s. kannski helst hvað skóbúnað varðar eða hvað? ,,Hlauparar sem taka þátt þurfa að græja sig sérstaklega eftir veðri og það þekkjum við öll sem búum á Íslandi. En hvað varðar hlaupaskó, þá vil ég meina að það þurfi ekki sérstaka utanvegaskó til að fara þessa leið. Undirlagið á leiðinni er ekki torfært heldur þjappaðir moldarstígar eins og eru í víðast hvar í Heiðmörk, hestastígar að hluta og góðir malarstígar. “

Lofa því að upplifunin verði góð

Svo gleðin verður við völd þann 18. maí og hver að hlaupa á sínum forsendum? ,,Já, hver og einn, ungir sem aldnir, eru að hlaupa á sínum forsendum í þessu hlaupi. Að skokka eða hlaupa reynir á og á að gera það. Til þess erum við að skokka og hlaupa til að auka vellíðan og úthald. En ég get lofað því að upplifunin verði góð að hlaupa um þessa fallegu náttúru sem er við bæjardyrnar hjá okkur. Þegar komið er í mark við Miðgarð verða veitingar og drykkir í boði, músík og stemning fyrir alla skokkara sem taka þátt,” segir Agnar Jón og nú er bara að skrá sig og vera með.

Þátttökugjald í hlaupið er 5.000 kr. til og með 17. maí, en það hækkar um 1.000 kr. á hlaupadegi. Skráning fer fram á hlaup.is

Afhending hlaupagagna verður í Miðgarði föstudaginn 17. maí frá kl. 16:00 til 18:00 og á hlaupadag laugardaginn 18. maí frá kl. 8:30 – 9:00. Hlaupið hefst svo stund-víslega klukkan 10:00.

Forsíðumynd: Brynjúlfur Halldórsson, formaður hlaupahóps Stjörnunnar (t.v) og Agnar Jón Ágústsson í ferð frá Landmannalaugum að Rjúpnavöllum, 50km leið á 2 dögum

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar