Það kom mörgum í opna skjöldu í síðustu viku þegar Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar, tilkynnti að hún hafi ákveðið að láta staðar numið í pólitíkinni og mundi óska eftir því með vorinu að verða leyst frá störfum í bæjarstjórn Garðabæjar, en Sara Dögg tók sæti í bæjarstjórn eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018.
Sara Dögg segist hafa verið falið óendanlega spennandi atvinnuverkefni sem er þess eðlis að hún verði alfarið að einbeita sér að því og segi því skilið við setu í bæjarstjórn Garðabæjar. En hvað tækifæri bauðst Söru Dögg á vinnumarkaðinum sem hún er svona spennt fyrir – um hvað snýst þetta verkefni? ,,Ég hóf störf hjá Vinnumálastofnun um miðjan febrúar þar sem mér er falið að leiða þau verkefni sem framundan eru og falla undir aukna atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Nýverið samþykkti Alþingi landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem inniheldur fjölmargar tillögur til þess að bæta stöðu fatlaðs fólks og aukin atvinnuþátttaka er þar á meðal,“ segir Sara Dögg.
Ekki svo ýkja flókin ákvörðun að hætta
Var þetta erfið ákvörðun þegar þetta atvinnutækifæri kom, að segja skilið við núverandi vinnu og setu í bæjarstjórn? ,,Þegar ljóst var í hvað stefndi var það ekki svo ýkja flókin ákvörðun. Ég hef lengi brunnið fyrir málefnum fatlaðra og gefist ákveðin tækifæri í bæjarstjórn vissulega til að ávarpa þau mál. En að fá tækifæri til að vinna að því að koma raunverulegum breytingum af stað er eitthvað annað. Mögulega má líkja því við að hafa sæti fulltrúa meirihluta í bæjarstjórn þar sem þú hefur raunveruleg tækifæri til þess að breyta standi hugur þinn á annað borð til þess.“
Mikilvægt að finna leiðir til þess að mæta þeim hindrunum sem mæta fötluðum einstaklingum
Þér hefur verið mjög umhugað um þennan málaflokk, málefni fatlaðra, það má sjá í fundagerðum í bæjarstjórn Garðabæjar í gegnum árin og þú hefur síðustu ár starfað hjá Þroskahjálp við mennta- og atvinnutækifæri fatlaðra ungmenna. Hvenær náðu þessi málefni til þín? ,,Já, rétt er það. Ég get farið aftur til þess tíma þegar ég starfaði sem skólastjóri í grunnskólum Hjallastefnunnar að þá komu auðvitað öll mál er varðaði nemendur inn á mitt borð og þar á meðal fatlaðra barna. Þá fannst mér strax mjög mikilvægt að setja þeirra stöðu í ákveðin fókus í mínu starfi og finna leiðir til þess að mæta þeim hindrunum sem mætti þeim og þar hafði ég sannarlega tækifæri til þess að gera það og það var ótrúlega gefandi og eitt það eftirminnilegasta af þeim vettvangi eru þau verkefni sem snéru að þeim börnum að breyta í þeirra þágu og mæta þeim á þeirra forsendum. Það hefur gefið mér óbilandi trú á að það er hægt að breyta kerfunum okkar ef alvöru vilji og kjarkur er til þess.“
Töluverð breyting hvernig Garðabæjar heldur á málaflokknum í dag
Þetta eru oft á tíðum nokkuð erfið og flókin mál til úrlausna. Hvernig finnst þér Garðabær standa að málefnum fatlaðs fólks? ,,Ég verð að segja að ég sé töluverða breytingu á því hvernig Garðabær heldur á málaflokknum í dag frá því að ég tók sæti við bæjarstjórnarborðið. En við getum gert betur það eru ennþá of margar hindranir í veginum. Við þurfum til dæmis að koma betur til móts við fötluð börn í íþrótta og tómstundastarfi en í dag stunda aðeins 4% fatlaðra barna einhverja íþrótt. Það er algjörlega óásættanlegt. Því skiptir máli og ég hef talað fyrir því nokkrum sinnum, mjög mikilvægt að festa í sessi álíka verkefni og nú er í gangi, samstarfsverkefni Asparinnar og Stjörnunnar sem Gunnhildur Yrsa leiðir svo faglega og fallega. Þetta skiptir máli.“
Pólitíkin blundar alltaf í mér og mun gera það áfram
Það eru tæp sex ár síðan þú settist í bæjarstjórn Garðabæjar, fyrst fyrir hönd Garðabæjarlistans, 2018-2022 og svo fyrir Viðreisn frá 2022-2024. Hvernig kom það til að þú fórst að blanda þér í pólitíkina og ákvaðst að gefa kost á þér? ,,Það var heldur óvænt að ég fór að pæla í bæjarpólitíkinni í Garðabæ. Ég hef hins vegar verið í Viðreisna frá stofnun flokksins og var um tíma þar langt á undan í Samfylkingunni og tók m.a. þátt í prófkjöri fyrir Kragann eftir hrun. Þannig að pólitíkin blundar alltaf í mér og mun gera það áfram. Ég tel mig í bullandi pólitík í þeim verkefnum sem ég fæ tækifæri til að sinna í dag og vakna gríðarlega spennt alla daga fyrir verkefnum dagsins.
Þú varst oddviti Garðabæjarlistans árin 2018-2022 þar sem flokkurinn stóð sig vel og náði tveimur bæjarfulltrúum inn í bæjarstjórn, en þú ákvaðst síðan að stíga út og bjóða þig fram undir merkjum Viðreisnar í kosningunum 2022. Hvernig kom það til? ,,Við vissum að Viðreisn sem flokkur nyti ákveðins fylgis meða íbúa Garðabæjar og fannst það afar spennandi að láta reyna á það af alvöru. Við vissum af kjósendum sem hefðu gjarnan viljað hafa val á milli Sjálfstæðisflokksin og Viðreisnar í kosningum en gætu ekki hugsað sér að kjósa vinstri flokkana. Enda kom á daginn að Viðreisn hefur hvergi á landinu hlotið jafn mikið fylgi og í Garðabæ í síðustu kosningum því geng ég afar stolt frá borði og vona að mínu fólki gangi áfram vel í þeirri vegferð.“
Mikil vinna að stija í bæjarstjórn ef maður ætlar að vanda sig og gera alvöru gagn
Þú segir skilið við bæjarstjórn Garðabæjar þar sem þú vilt einbeita þér að starfi þínu hjá Vinnumálastofnun. Er mikil vinna að sitja í bæjarstjórn? ,,Já, það er gríðarlega mikil vinna sem fer í það að setja sig vel inn í mál ef maður ætlar að vanda sig og gera alvöru gagn. Þess vegna m.a. taldi ég mig þurfa að forgangsraða á þessum tímapunkti. Ég hef hingað til valið og fengið tækifæri til þess að vera ekki alveg í fullu starfi með pólitíkinni sem gerði það að verkum að ég átti smá tíma aflögu og þurfti því ekki eingöngu að vinna pólitísku verkefnin eftir almennan vinnutíma. En nú horfir öðruvísi við og verkefnin framundan stór og þess eðlis að ég vil geta einbeitt mér alfarið að þeim. Og eiga einhvern tíma þar fyrir utan þar sem hausinn er ekki stöðugt að pæla í pólitík og næstu skrefum á þeim vettvangi.“
Ótrúlega þakklát fyrir þá reynslu og allt sem ég hef lært á þessum tíma
En hvernig hafa þessi sex ár verið í bæjarstjórn, mikill lærdómur, skemmtileg áskorun, góður vinnustaður og verður eftirsjá að hætta? ,,Frábær tími. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þá reynslu og allt sem ég hef lært á þessum tíma. Það eru algjör forréttindi að vera treyst í þetta hlutverk bæjarfulltrúans fyrir það er ég afar þakklát. Ég fer mjög sátt. Ég er búin að atast í þessu í 6 ár stundum full mikið að mati einhverra og látið fara þokkalega mikið fyrir mér sem ég hef notið og haft einstaklega gaman af. Hlutverkið er kannski ekkert sérstaklega vel varið. Við erum berskjölduð og stundum eru óþarflega mikil átök en heilt yfir gengur vel og það er einhver galdur og töfrar sem felast í því að skipta á skoðunum og best ef hægt er að vinna saman og sameina ólík sjónarmið. Þannig á það auðvitað að vera og það hef ég verið óþreytandi að benda félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum á í gegnum þessi ár og svei mér þá ef það er ekki loks að skila smá árangri.“
Mér hefur alla tíð liðið vel í Garðabæ og þykir gott að búa í sveitarfélaginu
Þú ert kennari að mennt og kynntist eiginlega Garðabæ fyrst í gegnum kennarastarfið er þú hófst störf við Barnaskólann á Vífilsstöðum árið 2004 og svo flytur þú í bæinn árið 2012 og hefur ílengst hér síðan. Hvernig er lífið í Garðabæ, er þetta gott sveitarfélag og gott að búa í bænum? ,,Já, rétt. Ég hef verið viðloðandi Garðabæ frá 2004 og ég get fullyrt að samfélagið hefur tekið mjög miklum breytingum síðan þá. Mér hefur alla tíð liðið vel í Garðabæ og þykir gott að búa í sveitarfélaginu. Við höfum öll tækifæri til þess að samfélagið haldi áfram að blómstra og eflast í krafti fjölbreytileikans sem fer vaxandi.
Er Crossfit-ari
Og svona að lokum, þegar Sara Dögg er ekki í vinnunni, hvað er hún þá að gera, einhver áhugamál sem þú stundar utan vinnutímmans? ,,Ó já. Ég æfi mikið, er Crossfit-ari eins og það kallast. Yfir sumartímann ver ég öllum stundum sem bjóðast úti á golfvelli, elska almennt að vera úti í náttúrunni og ferðast jafnt innanlands sem utan er meðal annars á leið til Japans í maí sem ég hlakka gríðarlega mikið til. Geng á fjöll og hjóla. Svo er alltaf gott að eiga góðar stundir með vinum og hafa gaman.“
Áttu von að snúa einhvern tímann aftur í politíkina, tvö ár í næstu sveitarstjórnarkosningar? ,,Hahaha. Satt best að segja á ég ekki von á því,“ segir Sara Dögg að lokum.