Garðbæingar hvattir til að sýna gott fordæmi með því að taka nærumhverfi sitt í fóstur og hlúa að því

Eins og síðustu ár eru Garðbæingar hvattir til að hreinsa lóðir sínar og nærumhverfi í sameiginlegu átaki, annars vegar í hreinsunarátaki í apríl (dagana 24. apríl – 8. maí)og svo í beinu framhaldi hefst vorhreinsun lóða dagana 8.-19. maí. Í miðju hreinsunarátaki, sunnudaginn 30. apríl er ,,Stóri plokkdagurinn“ sem nú er haldinn í sjötta sinn víðs vegar um land og allir Garðbæingar eru að sjálfsögðu hvattir til að taka þátt. 

Hreinsum bæinn

Hreinsunarátak bæjarins er með hefðbundnu sniði en þá eru íbúar eru hvattir til að sýna gott fordæmi með því að taka nærumhverfi í fóstur og hlúa að því. Starfsmenn bæjarins munu hirða upp alla poka og annað eftir ruslatínslu bæjarbúa, hópa eða einstaklinga. Hægt er að nálgast poka í áhaldahúsinu við Lyngás 18 og þátttakendur eru hvattir til að flokka plast sérstaklega frá öðru rusli í glæran plastpoka.

Vorhreinsun lóða

Þegar hreinsunarátaki bæjarins líkur er tímabært að hlúa að heimilisgörðum. Dagana 8.-19. maí verða starfsmenn bæjarins og verktakar á ferðinni og hirða garðúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðamörk. Farið verður á milli allra hverfa bæjarins og nánari upplýsingar um hvenær verður hirt úr hvaða hverfum má sjá á vef Garðabæjar, gardabaer.is, auk þess sem það verður kynnt hér í Garðapóstinum í maí. Samhliða hefst götusópun í íbúðahverfum þegar vorhreinsunin stendur yfir en byrjað var að sópa aðalgötur bæjarins í apríl.

Vonandi geta sem flestir tekið þátt í því að gera Garðabæ að snyrtilegasta bæ landsins!

Mynd: Bæjarbúar hafa nýtt þessa frábæru þjónustu sem bærinn býður upp á og tekið til í nærumhverfi sínu og görðum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar