Allmargir sótt flotta sumarsýningu Grósku. Opið 1. og 2. maí kl. 14-18 í Gróskusalnum á Garðatorgi
Sumarsýning Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ, var opnuð í Gróskusalnum við Garðatorg 1 á sumardaginn fyrsta. Sýningin var opin til 25. apríl sl. og verður síðan opin aftur helgina 1.-2. maí kl. 14-18. Þetta er salonsýning með 37 sýnendum og um 130 listaverkum: málverkum, vatnslitamyndum, glerlist, skúlptúrum úr ýmsum efnum o.fl.
Eins og tíðkast á slíkum sýningum eru myndir hengdar upp þétt saman frá gólfi og upp undir loft og þetta skapar sprengikraft. Sýningarstjóri þessarar margbrotnu sýningar er Birgir Rafn Friðriksson. Í miðju salonsýningarinnar hefur verið sett upp stórt sameiginlegt veisluverk allra sýnenda þar sem hver hefur lagt til eina litla mynd. Þemað er „veisla“ og verkið felur í sér gjörning þar sem listaverkin hafa verið lögð á borð og Gróska býður til veislu sem stendur yfir svo lengi sem sýningin er opin en veislugestum er hleypt inn í litlum hópum. Allmargir gestir hafa þegar heimsótt sýninguna og vel er gætt að fjöldatakmörkunum og sóttvörnum. Sköpun litlu veisluverkanna hófst upp úr 10 ára afmæli Grósku 1. mars 2020 og höfundur heildarveisluverksins er Laufey Jensdóttir. Í tengslum við sýninguna er Rebekka Jenný Reynisdóttir auk þess að gera myndband með spjalli við listamennina.
Sjöfn Ólafsdóttir tók ljósmyndir.