Mjög öflugt og kraftmikið lið

Stjarnan tekur á móti Leikni í Pepsi-Max deildinni á Samsungvellinum kl. 19:15 í kvöld

Pepsí-Max deild karla hófst í gærkvöldi með sigri Vals á ÍA að Hlíðarenda, en fyrsti leikur karlaliðs Stjörnunnar er í kvöld kl. 19:15 á móti nýliðum Leiknis Reykjavík á Samsungvellinum í Garðabæ.  

Stjörnunni var spáð 5. sæti í árlegri spá þjálfara og fyrirliða Pepsi-Max liðanna í vikunni en Leikni var spáð fallsæti og því mikilvægt fyrir Stjörnuna að taka 3 stig í þessum leik, eins og reyndar í öllum öðrum leikjum sumarsins. 200 áhorfendum verður hleypt inn á leikinn í kvöld og að sjálfsögðu er búið að tryggja Silfurskeiðinni 10% af miðunum enda góður stuðningur mikilvægur á móti nýliðunum, sem munu leggja allt sitt í leikinn.

Garðapósturinn heyrði hljóðið í eldhressum þjálfara Stjörnunnar, Rúnari Páli Sigmundssyni.
Mótið að fara af stað og fyrstu leikur á móti nýliðum Leiknis – hvernig líst þér á, alltaf erfitt að mæta nýliðum og sérstaklega í upphafi móts?
,,Okkur líst vel á að byrja mótið og það er alltaf gaman að spila við Leikni. Mjög öflugt og kraftmikið lið. Það skiptir engu máli móti hvetjum þú mætir í fyrsta leik þú þarft alltaf að vera tilbúinn og leggja þig 100 % fram og vera með hugarfarið 100%.” 

Við erum með frábæran hóp

Það hafa orðið töluverðar breytingar á leikmannahópi Stjörnunnar, ánægður með þær breytingar sem hafa orðið og eruð þið enn að leita að leikmönnum til að styrkja hópinn? ,,Við erum með frábæran hóp og við erum ekki að leita að styrkingu.“ 

Þetta er búið að vera sérstakt undirbúniningstímabil út af kórónaveirunni og samkomutakmörkunum – hvernig kemur liðið undirbúið til leiks? ,,Við höfum æft mjög stíft í vetur, hlaupið mikið og styrkt okkur. Búinn að vera fínn vetur í burtséð frá nokkrum vikum í samkomubanninu. Liðið kemur vel undirbúið til leiks og er tilbúið í bráðskemmtilegt sumar.“ 

Ætlum að berjast um titlana

Nú er Stjörnunni spáð 5. sæti af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í Pepsi-Max deildinni – hvað segirðu um þá spá;  er hlutskipti Stjörnunnar að ná ekki lengra í ár eða eru markmiðin háleitari í Garðabæ? ,,Spá er alltaf spá. Pælum ekki mikið í því. Við erum félag sem vill alltaf berjast um titla og við ætlum að gera það  líka í ár. „

F.v. Helgir Hrannar formaður meistaraflokksráðs karla og Þorvaldur Örlygsson aðstoðarþjálfari Stjörnunnar

Sterkt á fá Þorvald í teymið

Og þú ert kominn með Þorvald Örlygsson sem þína hægri hönd – sterkt að fá Þorvald inn í þjálfarateymið? ,,Þorvaldur er frábær þjálfari og það er mjög sterkt fyrir okkur að fá hann í teymið.“ 

Góður stuðningur lykill að árangri

En þú ert brattur fyrir leikinn á móti Leikni og mikilvægt að taka þrjú stig á heimavelli? ,,Já, það er gríðarlega mikilvægt að byrja vel. Við þurfum að eiga okkar besta leik til að fá 3 stig í fyrsta leik sumarsins. Vonandi að okkar fólk í Silfurskeiðinni og aðrir Garðbæingar hvetji  okkur til dáða í sumar og mæti eins og undanfarin ár því það er algjör lykill að árangri. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar