Stjarnan gefur öllum grunn- og framhaldsskólum í Garðabæ bókina ,,Skíni Stjarnan”
Stjarnan gefur öllum grunn- og framhaldsskólum í Garðabæ bókina ,,Skíni Stjarnan“ sem fjallar um sögu ungmennafélagsins Stjörnunnar í Garðabæ.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður grunnskólanefndar Garðabæjar, og Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, tóku við bókagjöfinni sl. fimmtudag og færðu Stjörnunni bestu þakkir fyrir bókagjöfina fyrir hönd Garðabæjar og skólanna.
Stjarnan 60 ára
Í lok síðasta árs gaf UMF Stjarnan út bókina ,,Skíni Stjarnan“ í tilefni af 60 ára afmæli félagsins 30. október 2020. Stjarnan var fyrsta æskulýðs- og íþróttafélagið í Garðahreppi og fékk fljótt mikinn hljómgrunn meðal íbúanna. Í áranna rás hefur starfsemi félagsins verið nátengd skólunum í bænum. Fyrstu íþróttamannvirkin voru nýtt bæði af félaginu og skólunum og var þar um að ræða frumstæðan grasvöll neðan þess svæðis þar sem Flataskóli stendur nú og stofa í kjallara þeirrar byggingar þar sem handknattleiksmenn Stjörnunnar stigu sín fyrstu skref í íþróttinni. Um langt skeið voru íþróttakennarar skólanna helstu þjálfarar hjá Stjörnunni og sumir þeirra frumkvöðlar í íþróttastarfi félagsins og má þar sérstaklega nefna þá Júlíus Arnarson, frumkvöðul frjálsra íþrótta og blaks hjá félaginu, og Magnús Teitsson sem starfað hefur manna lengst sem þjálfari hjá Stjörnunni jafnhliða íþróttakennslu. Með tengingu Stjörnunnar og skólanna varð jafnframt til foreldrastarf hjá félaginu sem er í raun félagsleg undirstaða þess að yngri flokka starf félagsins varð meira og virkara.
Þakklæti til skólanna í Garðabæ fyrir samvinnu og stuðning
Bókin ,,Skíni Stjarnan“ hefur fengið einstaklega góðar viðtökur. Um er að ræða 500 síðna bók í stóru broti og er hún prýdd mörgum fjölmörgum ljósmyndum sem segja einnig sína sögu. Höfundur bókarinnar er Steinar J. Lúðvíksson sem einnig ritaði sögu Garðabæjar. Í tilkynningu frá Stjörnunni um bókagjöfina segir: ,,UMF Stjarnan vill sýna í verki þakklæti sitt til skólanna í Garðabæ fyrir nána samvinnu og stuðning við starf félagsins. Í tilefni af afmælinu hefur félagið ákveðið að færa öllum grunn- og framhaldsskólum í bænum þrjú eintök af bókinni ,,Skíni Stjarnan“ og stuðla þannig að greiðum aðgangi skólanemenda að sögu félagsins sem þeir, margir hverjir, hafa kynnst af eigin raun í leik og starfi.“