Vill hefja undibúning að gerð hverfaskipulags í Kópavogi

Theodóru S. Þorsteinsdóttur bæjarfulltrúi Viðreisnar lagði það til á síðasta fundi bæjarráðs að hafinn yri undirbúningur að gerð hverfisskipulags fyrir hvern bæjarhluta/hvert hverfi í Kópavogi.

Theodóra segir í greinagerð með tillögunni að mikilvægt sé að hraða vinnu við gerð hverfisskipulags við þau fimm hverfi sem skilgreind eru í Kópavogi.

,,Markmiðið er að öll hverfi í Kópavogi fái sérstakt hverfisskipulag þar sem m.a. er mótuð stefna um breytingar á húsnæði, fjölgun íbúa, samgöngur, græn svæði og styrking verslunar og þjónustu í hverfum. Einnig að fegra umhverfið og hvetja til heilsueflandi athafna. Við gerð hverfisskipulags er gott tækifæri til þess að færa mótun umhverfis nær íbúum með virku samráði.

Kópavogsbær hefur samþykkt að innleiða Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin eru leiðarvísir að sjálfbærari heimi árið 2030, því er mikilvægt að sjálfbærni verði leiðarljós við gerð hverfisskipulags.

Hverfisskipulag er notað fyrir gróin hverfi og er skipulagsáætlun fyrir fastmótaða byggð sem nær yfir stærra landsvæði en hefðbundið deiliskipulag.

Með hverfisskipulagi er mögulegt að setja fram heildstæða skipulagsáætlun sem nær yfir mörg minni svæði sem annars hafa verið skipulögð sem sjálfstæðar einingar og byggð upp á mismunandi tímabilum. Slíkt gerir sveitarfélagi betur kleift að setja fram samræmda stefnu fyrir margar hverfiseiningar sem voru upphaflega ekki skipulagðar sem ein heild.

Til þess að tillagan nái fram að ganga þarf að áætla kostnað við gerð hverfisskipulags fyrir öll fimm hverfi Kópavogs og leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun.“

Bæjarráð vísaði erindinu til umsagnar sviðsstjóra umhverfissviðs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar