Málefnastefna fyrir Garðabæ

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans hefur lagt það til að ráðist verði í gerð málstefnu fyrir sveitarfélagið í samstarfi við Íslenska málnefnd.

Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans

Í greinagerð sem Þorbjörg lét fylgja með tillögunni ásamt Ingvari Arnarsyni samflokksmanni sínum, telur hún mikilvægt að upplýsingar sem koma frá Garðabæ séu skýrar, aðgengilegar sem flestum og settar fram á vönduðu máli. ,,Í sveitarstjórnarlögum er sérstök grein um málstefnu, sem heyrir undir „aðrar skyldur sveitarfélaga“. Þar er kveðið á um að sveitarstjórn móti málstefnu fyrir sveitarfélagið í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Nánar er sagt til um ætlað innihald málstefnu, m.a. að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og að gert sé grein fyrir því hvenær víkja má frá þeirri reglu. Einnig eigi að ákveða hvaða gögn skuli samhliða liggja fyrir á erlendum málum og þá á hvaða tungumálum. Þá á í stefnunni að koma fram réttur íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á öðrum málum en íslensku.

Gerð málstefnu Garðabæjar er til þess fallin að senda skýr skilaboð um vægi og virðingu íslenskrar tungu, en málstefna er einnig nytsamlegt tæki sem auðveldar starfsfólki að taka ákvarðanir um framsetningu gagna af ýmsu tagi og tryggir samræmi og fyrirsjáanleika í aðgengi fólks að upplýsingum.”

Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar lagði til að vísa tillögunni til úrvinnslu bæjarstjóra, sem bæjarstjórn samþykkti.

Forsíðumynd: Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar