Viljum að fólk njóti aðventunnar

Undirbúningur fyrir jólin á veitingahúsinu 27 mathús & bar er kominn á fulla ferð. Fram undan er jólahlaðborð og jólabröns.

Stórglæsilegt jólahlaðborð og jólabröns

„Við erum komin i miklar jólahugleiðingar hér á 27 mathúsi. Við ætlum að bjóða stórglæsilegt jólahlaðborð og erum þegar farin að bóka hópa. Jólabrönsinn verður líka á sínum stað en hann var vinsæll í fyrra. Við erum mikið jólafólk og við viljum að fólk njóti aðventunnar sem best,“ segir Hringur Helgason, framkvæmdastjóri 27 mathús & bar sem er staðsett við Víkurhvarf.
Veitingahúsið fagnar tveggja ára afmæli í mars á næsta ári. „Já við hófum starfsemina kortér í Covid. Nú horfum við fram á veginn og vonum að heimurinn verður brátt endanlega laus undan faraldrinum.“

Hringur segir bæjarbúa hafa tekið staðnum afar vel, fastagestirnir eru orðnir margir. Þá hafa verið ýmsir viðburðir, svo sem afmælisveislur, árshátíðir og tónleikar. „Við ætlum að fikra okkur meira áfram í að halda viðburði í vetur.“

Sérstakt hátíðarkvöld fyrir veganfólk

Jólahlaðborðið verður veglegt, yfir 30 réttir ásamt ýmsu meðlæti. „Við ætlum líka að halda sérstakt hátiðarkvöld fyrir veganfólk. Við höfum haldið nokkur vegankvöld, ávallt hefur verið húsfyllir og þetta er alltaf skemmtileg tilbreyting finnst okkur,“ segir Hringur.

Sælkeramatur í gjafaöskjum

Annað sem tilheyrir jólastemningunni á 27 mathúsi eru gjafakörfur. „Við buðum sælkeramat í kössum í fyrra og það gekk vonum framar. Við fyllum kassana með okkar eigin mat og ýmsu öðru góðmeti. Við ætlum að endurtaka leikinn og munum kynna þessa jólagjafahugmynd bráðlega.“

Matseðillinn á 27 mathúsi á rætur að rekja til Suðurríkja Bandaríkjanna, Norður-Afríku og Miðjarðarhafsins. „Við breytum matseðlinum reglulega, nýir réttir koma inn og aðrir fara út. Kokkunum finnst gaman að koma með nýjungar. Ein skemmtileg nýjung hjá okkur er Bloom 27 gin en það er gin sem við framleiðum sjálf, fagurblátt og innheldur fiðrildabaunablóm sem er afar hollt,“ segir Hringur Helgason.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar