Nú er endurbótum á steindu gleri Gerðar Helgadóttur, myndhöggvara og ytri umgjörð glugganna í Kópavogskirkju að ljúka, en gluggar Gerðar í þessari elstu kirkju í Kópavogi þykja einstakega fallegir og hafa vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis, sumir tala jafnvel um að verk Gerðar séu djásn byggingarinnar.
Verkið hófst í júní árið 2018 er fyrstu glermyndirnar eftir Gerði voru teknar niður í kirkjunni og þær fluttar til endurgerðar í glersmiðju Oidtmann-bræðra í borginni Linnich í Þýskalandi. Verkið var unnið í þremur áföngum og því lauk núna í október.
Ekki umflúið að ráðst í verkið
Guðmundur Jóhann Jónsson er formaður sóknarnefndar Kópavogskirkju og Kópavogspósturinn spurði hann m.a. að því af hverju farið var af stað í þetta veigamikla verk? ,,Kópavogskirkja heldur upp á 60 ára vígsluafmæli á næsta ári, á árinu 2022. Það segir okkur að kirkjubyggingin er komin til ára sinna og það er með kirkjur eins og aðrar byggingar, allt þarf sitt viðhald ef tryggja á gott útlit og endingu til langs tíma. Það var farið að sjá á gluggunum hennar Gerðar, blýið var farið að rofna á sumum stöðum og gluggarnir farnir að bólgna og skekkjast. Íslenskt veðurfar eirir engu og það átti algjörlega við um gluggana, tíminn, veður og vindar voru að vinna á þeim. Við fengum því sérfræðinga frá fyrirtækinu Oidtmann (http://www.glasmalerei-oidtmann.de) í Þýskalandi til að ástandsmeta gluggana og þeirra niðurstaða var sú að ef ekkert væri að gert innan 4-5 ára þá væri hætta á að þeir myndu hreinlega skemmast. Það var því ekki umflúið að ráðast í verkið. Til gamans má geta þess að Oidtmann fyrirtækið er 150 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki, hið elsta sinnar tegundar í Þýskalandi og sérfræðingar á þeirra vegum settu glerið upphaflega upp í kirkjunni.
Og hvaða endurbætur voru gerðar á gluggunum og ytri umgjörð þeirra? ,,Það var ákveðið að taka suðurhliðina fyrst en þar var ástand gluggana verst, síðan austur og norður og í sumar vesturhliðina. Þjóðverjarnir komu þrisvar til landsins, tóku allt steinda glerið úr og pökkuðu vandlega niður í sérstaka kistu sem síðan var flutt til Þýskalands. Þar var allt yfirfarið, hreinsað, blý endurnýjað eins og þurfti og að því loknu var allt endursent til Íslands og þá mættu þjóðverjarnir aftur og settu í kirkjuna að nýju. „
Viðamikið og kostnaðarsamt verkefni
Þetta var stórt og kostnaðarsamt verk sem sóknarnefnd Kópavogskirkju ákvað á ráðist í árið 2018. Hverjir hafa komið að verkinu, hver var kostnaðurinn og hvernig hefur gengið að fjármagna verkið? ,,Það er óhætt að segja að þetta hafi verið viðamikið og kostnaðarsamt verkefni. Í sóknarnefnd kirkjunnar eru leikmenn og alls engir sérfræðingar í að endurgera og lagfæra steint gler. Mér er reyndar til efs að það finnist fólk með slíka þekkingu í landinu. Við fengum því áðurnefnt fyrirtæki Oidtmann til liðs við okkur og síðan var það fyrirtækið Fagsmíði sem staðsett er hér á Kársnesinu sem vann á móti þjóðverjunum. Þeirra menn skiptu um allt ytra glerið (glæra glerið) og endurnýjuðu timbrið, hreinsuðu föls og annað sem til þurfti og undirbjuggu hverja hlið þannig fyrir endur ísetningu á gluggunum.“
Óhugsandi að láta slík verðmæti skemmast
En þetta verk hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir kirkjuna og söfnuðinn? ,,Gluggar Gerðar Helgadóttur eru menningarverðmæti og gríðarlegt listaverk út af fyrir sig þannig að það er óhugsandi að láta slík verðmæti skemmast. Að sjálfsögðu hefur það mikla þýðingu að búið sé að lagfæra alla glugga kirkjunnar þannig að þeir standi af sér veður og vinda næstu áratugina og jafnvel enn lengur. Kópavogskirkja stendur á einhverjum fallegasta stað höfuðborgarsvæðisins, hún er einstök táknmynd Kópavogs og á sterkan stað í hjarta okkar Kópavogsbúa og jafnvel langt út fyrir bæjarmörkin. Kópavogskirkja er okkar stolt og því erum við viss um að margir gleðjist og samfagni með okkur að verkefninu loknu.“
Og má ekki segja að það séu jafn fáar kirkjur á Íslandi og þótt víðar væri leitað sem státa af jafn fögrum steindum gluggum og Kópavogskirkja? ,,Það er örugglega ekki á neinn hallað þó við segjum að þetta séu fallegustu kirkjugluggar á Íslandi. Við Kópavogsbúar erum í það minnsta þeirrar skoðunnar.“
Og nú er þessum áfanga lokið eftir rúm þrjú ár – á að gera eitthvað af því tilefni, bjóða bæjarbúum að koma og sjá afraksturinn? ,,Þetta verkefni hefur kostað sitt, þó endanlegar tölur liggi ekki fyrir á þessari stundu þá vitum við að kostnaður er eitthvað á annað hundrað milljónir króna. Það er mjög ánægjulegt að segja frá því að við höfum notið mikillar velvildar frá fyrirtækjum, félagasamtökum, einstaklingum og svo höfum við fengið framlög úr sameiginlegum sjóðum þjóðkirkjunnar. Án þessa stuðning hefði okkur ekki verið unnt að ráðast í þetta kostnaðarsama verkefni. Það verður guðsþjónusta 24. október kl.11:00 í kirkjunni og svo verður opið í kirkjunni sérstaklega á eftir guðsþjónustu til kl.15:00 þann sama dag og þá gefst bæjarbúum og öðrum þeim sem áhuga hafa kost á að skoða listaverk Gerðar Helgadóttur í kirkjunni. Leiðsögn verður kl. 12:30-13:00 þann sama dag um glugganna og verkið.“
Höfum nú áhuga að draga andann eilítið
En hvað bíður nú sóknarnefndar þegar þessu verkefni er lokið, einhver ný verkefni framundan eða fær sóknarnefndin smá andrými til að gleðjast og njóta þessar fallegu endurbóta á kirkjunni? ,,Blessunarlega sjáum við ekki fram á eins krefjandi og umfangsmikið verkefni á komandi árum. Það er mikill léttir að þetta verkefni sé að baki og að það hafi heppnast eins vel sem raun ber vitni. Það hefur mikil orka farið hjá sóknarnefndarfólki, prestum og starfsfólki á liðnum árum í þetta einstaka verkefni. Nú höfum við hug á að draga andann eilítið, efla okkar innra starf enn frekar og þjónustu við stækkandi söfnuð, fólkið á Kársnesinu. En það eru alltaf verkefni til staðar, kirkjan er eins og ég gat um í upphafi að verða 60 ára og lýsing og annað innandyra þarfnast endurnýjunar. Þetta er blessunarlega ekki eins umfangsmikið verkefni og endurnýjun glugganna en engu að síður eitthvað sem við munum þurfa ráðast í nánustu framtíð,“ segir Guðmundur að lokum.