Vilja sveigjanleika í sumarfrísdögum á leikskólum Kópavogs

SAMLEIK, félag foreldra leikskólabarna í Kópavogi, hélt nýverið samráðsfund með foreldrum leikskólabarna í Kópavogi

SAMLEIK, félag foreldra leikskólabarna í Kópavogi, hélt nýverið samráðsfund með foreldrum leikskólabarna í Kópavogi þar sem drög voru lögð að stefnu félagsins og áherslumálum fyrir næstkomandi skólaár.

Fundurinn var haldinn í Fagralundi og mættu fulltrúar foreldraráða og foreldrafélaga. Kosið var um áherslumál og sammæltust fundarmenn um eftirfarandi:

–          Foreldrar styðja styttingu vinnuviku leikskólastarfamanna. Stytting vinnuvikunnar getur þó ekki orðið til þess að sækja þurfi börn fyrr í leikskóla. 
 
–          Foreldrar óska eftir samskiptasáttmála varðandi dvöl barna í kringum hátíðardaga. Lagt er til að tekið verði upp staðlað spurningaform.
 
–          Foreldrar óska eftir sveigjanleika á sumarfríi leikskólabarna. Óska foreldrar þess að bæjaryfirvöld taki mið af fyrirkomulagi annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hafa innleitt sveigjanleika. 

SAMLEIK hvetur foreldra eindregið til að fylgjast með félaginu, hafa samband og taka virkan þátt. 

Hver eru næst skref félagsins?
SAMLEIK mun á næsta starfsári halda áfram góðri samvinnu við aðra fulltrúa í leikskólanefnd og leitast eftir leiðum til þess að finna áherslumálum félagsmanna farveg. 
Haldinn verður annar samráðsfundur í september þar sem áherslumál verða útfærð nánar. 

Hvað er SAMLEIK?
Félagið hefur það að markmiði að vera sameiginlegur málsvari foreldra gagnvart stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum. Félagið á fulltrúa innan leikskólanefndar bæjarins þar sem gefst tækifæri til þess að koma sjónarmiðum foreldra á framfæri.

Kosið er í stjórn félagsins til tveggja ára. Núverandi stjórn skipa Hildur Mist Friðjónsdóttir, formaður, Karen Rúnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi, og Hildur Magnúsdóttir, stjórnarmaður.

Karen Rúnarsdóttir áheyrnarfulltrúi Samleik

Það geta ekki allir tekið sumarfrí á sama tíma

Karen var spurð að því hvort Samleik leggði mikla áherslu á að foreldrar hafi val um hvenær þeir taki sumarfrí með börnunum sínum, eins og er t.d. í Garðabæ og Hafnarfirði? ,,Já, ekki allir hafa kost á því að taka sumarfrí á sama tíma. Sveigjanleiki í sumarfrísdögum gefur fjölskyldum aukinn kost á því að njóta frídaga saman og er í takt við það sem önnur sveitarfélög bjóða,“ segir Karen Rúnarsdóttir áheyrnarfulltrúi í Samleik.

Lengd dvalar í kringum stórhátíðir

Hvað varðandi samskiptasáttmála varðandi dvöl barna yfir hátíðadaga – hvað sjáið þið fyrir ykkur þar? ,,Foreldrar barna í leikskólum í Kópavogi upplifa almennt góð samskipti og eru ánægðir með það frábæra starf sem unnið er. Með samskiptasáttmála mætti koma í veg fyrir þau tilvik þar sem foreldrar hafa upplifað þrýsting í tengslum við lengd dvalar og nýtingu leikskólaplássa í kringum stórhátíðir. Þetta er þó misjafnt á milli leikskóla. Víða er mjög vel að þessu staðið en í öðrum tilvikum mætti betur fara. Það er vilji SAMLEIK að draga lærdóm af því sem gengið hefur vel og bæta það sem betur má fara. Ein tillagan sem hlaut góðan hljómgrunn, var að sendur yrði út stöðluð spurningakönnun um mætingu í kringum stórhátíðir,“ segir Karen að lokum

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar