Gleymdir þú bókasafnsskirteininu þínu? Það skiptir bara engu máli!

Nú þarf þarf enginn að hafa af því áhyggjur af að gleyma bókasafnsskírteininu heima ef að síminn er með í för. Bókasafn Garðabæjar býður nú gestum sínum að umbreyta plastskírteininu í stafræna mynd sem er geymd í veskisappi í snjallsímanum.

Gjörningurinn er einfaldur og leiddur áfram af starfsmönnum bókasafnsins. Á afgreiðsluborðinu er QR kóði sem lánþegi skannar inn í símann sinn. Þeir sem eru með Android síma þurfa fyrst að hlaða niður veskisappinu SmartWallet sem er það sama og notað er fyrir rafræn ökuskírteini. Þeir sem eru með iPhone nota bara myndvélina í símanum. Starfsfólk safnsins gefur lánþega upp 4 stafa kóða sem er sleginn inn í símann. Þá er hægt að ná í stafræna skírteinið og plastið heyrir brátt sögunni til.

Um er að ræða samvinnuverkefni Bókasafns Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Kópavogs en hægt er að nota skírteinið á öllum þeim söfnum eins og hægt var að nota gamla plastskírteinið.

Þá má einnig geta þess að verið er að vinna að þróun stafræns sundkorts í Garðabæ sem fer í loftið á næstu misserum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar