Fyrsti íþróttavöllur í Kópavogi var vagga kvennaknattspyrnu

Söguskilti um Vallargerðisvöll í Kópavogi var afhjúpað í dag, fimmtudaginn 8.júlí. Tvær ungar og efnilegar fótboltastúlkur úr Breiðablik, þær Elísabet María Júlíusdóttir og Hrafnhildur Ýr Guðmundsdóttir, afhjúpuðu skiltið ásamt Þórði Guðmundssyni formanni Sögufélags Kópavogs. Á Vallagerðisvelli voru fyrstu reglubundnu æfingar í kvennaknattspyrnu á Íslandi og var þess minnst við tækifærið.

„Það er ánægjulegt hversu góð staða kvennafótboltans í Kópavogi er og hefur verið í gegnum tíðina. Hér eru rætur kvennaknattspyrnunnar og við erum stolt af því. Við höfum lagt metnað í aðstöðu til íþróttaiðkunar í Kópavogi og mikil þátttaka barna í íþróttum í bænum er fagnaðarefni,“ segir Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóri Kópavogs sem var viðstaddur afhjúpunina ásamt þeim sem komu að gerð skiltisins.

Söguskiltið stendur við Vallargerði, þar sem lengi stóð gæsluhús fyrir völlinn. sem er við milli Vallargerðis og Kópavogsbrautar. Árið 1968 hófust æfingar í knattspyrnu kvenna hjá Breiðablik á vellinum og þá er þess getið að Sigrún Ingólfsdóttir tók dómarapróf í fótbolta fyrst íslenskra kvenna árið 1968 á vellinum.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í kvennaknattspyrnu frá fyrstu dögum kvennaboltans en þess má geta að um 3.000 stelpur taka þátt í Símamóti Breiðabliks sem hefst í dag. Mótið fer fram í Kópavogi, á Kópavogsdal og á fótboltavöllum við Fagralund í Fossvogsdal. Þess má geta að Kópavogsfélögin tvö, Breiðablik og HK, senda yfir 500 þátttakendur á mótið að þessu sinni.

Vallargerðisvöllur var fyrsti opinberi íþróttavöllur Kópavogsbúa og var notaður til íþróttaiðkana um árabil. Hann var malarvöllur og var einnig notaður sem skautasvell á veturna. Völlurinn var endurbættur nokkrum sinnum frá því að hann var tekinn í notkun árið 1954. Einn fjölmennasti viðburðurinn á vellinum var leikur Breiðabliks og ÍBV árið 1973, tveimur árum áður en Kópavogsvöllur var tekinn í notkun. Í dag standa kennslustofur Kársnesskóla þar sem völlurinn stóð.

Skiltið er unnið í samvinnu Kópavogsbæjar og Sögufélags Kópavogs.

Á myndinni eru frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, Elísabet María Júlíusdóttir, Hrafnhildur Ýr Guðmundsdóttir, leikmenn fimmta flokks Breiðabliks, Valdimar F. Valdimarsson, Guðmundur Þorsteinsson, Kópavogsbæ, og Þórður Guðmundsson, Sögufélagi Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar