Vignir Vatnar Stefánsson skákmaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2023.
Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum í gær, fimmtudaginn 11. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 300 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.
Vignir Vatnar og Thelma voru valin úr hópi 42 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.
Auk þeirra Vignis Vatnars og Thelmu hlutu átta einstaklingar viðurkenningu fyrir frammistöðu á árinu í flokknum 17 ára og eldri.
Þá hlutu 32 unglingar viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu 2023.
Í fyrsta sinn var gefinn kostur á að tilefna kvár og stálp til viðurkenninga og fékk stálp í flokki 13 til 16 ára viðurkenningu á hátíðinni.
Fjöldi annarra viðurkenninga var veittur á hátíðinni. Meðal annars var sjálfboðaliði ársins valinn í fyrsta sinn og hlaut Gunnþór Hermannsson þá viðurkenningu fyrir starf sitt í þágu HK.