Við trúum því að í lífinu eigi maður alltaf að gera sitt besta, ekki bara fyrir sjálfan sig heldur líka reyna að láta gott af sér leiða

Bpro heildverslun tekur í fyrsta skipti þátt í Mottumars, sem er árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum, en Bpro hefur áður styrkt Krabbameinsfélagið með því að taka þátt í Bleiku slaufunni. Í samvinnu við sænska herramerkið Beard Monkey hefur Bpro látið framleiða sérmerkt mottuvax sem verður selt til styrktar Krabbameinsfélagsins, en allur ágóði af sölu á vaxinu rennur beint til félagsins.

Tilgangur Mottumars er að allir taki höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein hjá körlum og afli um leið fjár fyrir mikivægri starfsemi Krabbameinsfélagsins. Átakið hefst 1. mars og í ár verður lögð áhersla á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum.

Eins og áður segir þá hefur Bpro stutt við Krabbameinsfélagið í gegnum Bleiku slaufuna, en árið 2021 seldi Bpro sérmerkta bleika Wonder Brush hárbursta frá HH Simonsen með bleiku slaufunni og söfnuðust rúmlega 3,5milljón króna fyrir Krabbameinsfélagið. Bpro er heildverslun með fagvörur fyrir hárgreiðslu- og snyrtistofur þar sem lagt er mikill metnaður í að bjóða einungis upp á hágæða vörur.

Eigendur Bpro eru hjónin Baldur Rafn Gylfason og Sigrún Bender og við spurðum Baldur hvernig það hafi komið til að þau ákváðu að taka þátt í Mottumars í ár? ,,Það er líklega einfalt svar en við trúum því að í lífinu eigi maður alltaf að gera sitt besta, ekki bara fyrir sjálfan sig heldur líka reyna að láta gott af sér leiða. Við höfum marg oft gert það og nokkrum sinnum ansi vel. Þarna sáum við leið til að leggja Mottumars lið og kýldum á að prófa með von um að okkar frábæru samstarfsaðilar um allt land tækju þátt með okkur, annars væri þetta ekki hægt,“ segir hann. 

Möst vara ef þú ætlar að móta skeggið í eitthvað alvöru form

Og það er vel við hæfi að kaupa mottuvax frá Beard Monkey í sjálfum Mottumars, bæði til að gera skeggið fallegt og að styðja við gott málefni að auki? ,,Ég hef oft sagt að sama hver varan er þá tekur maður bara þátt og kaupir ef maður hefur einhver tök á, hvort sem um er að ræða álfa, lyklakippur eða mottuvax. Og við erum afar stolt að segja frá því að allur ágóði af sölu á mottuvaxinu mun renna beint til Krabbameinsfélagsins. Annars er þessi vara möst ef þú ætlar að móta skeggið í eitthvað alvöru form. Það þornar fljótt þar sem það er lítið af olíum í því sem munar öllu fyrir alvöru skeggjara.“

Með mikið úrval af góðum skeggvörum

Það þarf væntanlega fleira en gott skeggvax þegar menn fara að safna skeggi, eruð þið með meira úrval af góðum skeggvörum? ,,Við erum með mikið úrval af góðum skeggvörum frá Beard Monkey og svo erum við auðvitað með Pasta & Love herralínuna frá Davines sem margir þekkja og elska. En það er ekki síðurmikilvægt að fara til alvöru rakara sem kennir manni að viðhalda og móta til að ná fullkomna skegginu. Ég er gamall fagmaður en eftir að ég lét sjá um þetta og kenna mér er ég alltaf með spot-on skegg,“ segir Baldur borsandi.

Mun klárlega sporta fínu skeggi í mars

Eins og þú nefnir þá ertu með spot-on skegg en ætlar þú að leggja metnað í Mottumars og safna í  góða mottu? ,,Ég er að sjálfsögðu alltaf vel skeggjaður, enda umkringdur bestu skeggvörunum og tækjunum. Ég mun því klárlega sporta fínu skeggi í mars og hver veit nema í hendi í mottuna!

En hvar verður hægt að nálgast mottuvaxið og aðrar skeggvörur frá Beard Monkey? ,,Mottuvaxið verður auðvitað fáanlegt hjá Krabbameinsfélaginu á krabb.is og hjá okkur á bpro.is. Það verður einnig fáanlegt á sölustöðum Beard Monkey, hjá okkar frábæru samstarfsaðilum á hár- og snyrtistofum um allt land,“ segir Baldur en lista yfir sölustaði Beard Monkey er að finna á bpro.is.

Allur ágóði til Krabbameinsfélagsins

Og eins og kemur fram þá eruð þið að styðja við Krabbameinsfélagið með sölunni á mottuvaxinu? ,,Já, það fer allur ágóði af sölunni af vaxinu til Krabbameinsfélagsins. Auk þess gefum við alla vinnu starfólks Bpro sem hefur vandað vel til verka með ást og alúð og allt markaðsefni. Við erum stolt af okkar verki og vinnu.

Í Mottumars í ár er lögð áhersla á mikilvægi hreyfingar sem forvörn gegn krabbameini. Eruð þið meðvituð um þetta og bæði dugleg að hreyfa ykkur? ,,Við erum mjög meðvituð um mikilvægi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu og erum dugleg að hreyfa okkur. Við stundum líkamsrækt og erum almennt mjög aktív fjölskylda. Starfsfólkið okkar er sama sinnis og við stefnum á að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu saman í ár“. 

Þetta að fara í skoðun hjá karlmönnum er oft feimnismál, en á ekki og má ekki vera það

Ég ætla ekki að spyrja þig um aldur Baldur, en það er mælt með að karlmenn og konur fari reglulega í krabbameinsskoðun. Ertu að standa þig hvað þetta varðar? ,,Aldur er afstæður en ég er 47 ára og er ekki feiminn við að segja það! En já, ég fór fyrst 40 ára og hef farið oftar og í meira en oft er talað um þar sem það er saga í minni fjölskyldu eins og svo mörgum. Þetta að fara í skoðun hjá karlmönnum er oft feimnismál, en á ekki og má ekki vera það. 

Allir hafa gaman af góðri gjöf

Og þið hvetjið að sjálfsögðu alla til að kaupa skeggvöruna frá Beard Monkey og styðja við Krabbameinsfélagið? ,,Auðvitað! Þó þú sért e.t.v. ekki með skegg til að leika með þá þekkirðu pottþétt einhvern sem hefði gaman af góðri gjöf og það er alltaf gott að styrkja gott málefni. Við erum mjög þakklát fyrir tækifærið til að styðja við Krabbameinsfélagið eins og við höfum gert áður með Bleiku slaufunni og nú með Mottumars,“ segir Baldur að lokum og við hvetjum bæjarbúa til að styðja við þetta góða málefni með kaupum á mottuvaxinu. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar