Nokkrir foreldrar leikskólabarna í Garðabæ hafa vakið athygli á því á síðustu vikum og mánuðum við Garðapóstinn að svo virðist sem foreldrar barna í nágrannasveitarfélögum séu að færa lögheimili barna sinni til ömmu og afa sem búa í Garðabæ eða jafnvel að annað foreldrið skrái lögheimilið sitt hjá ættingjum og vinum í Garðabæ ásamt barni, til að komast með það fyrr inn á leikskóla, því Garðabær virðist vera standa sig betur í þessum leikskólamálum en nágrannasveitarfélögin, en þessi gjörningur er náttúrulega á kostnað barna sem eru uppalin og búsett í Garðabæ og komast þá jafnvel ekki inn í leikskóla á tilsettum tíma.
Leikskólanefnd er að vinna að breytingum á innritunarreglum um leikskóla
Ásta Sigrún Magnúsdóttir, samskiptafulltrúi Garðabæjar, var spurð hvort Garðabær hafi fengið ábendingar um þessi mál og hvort brugðist hafi verið við þeim með einhverjum hætti í viðtali við Garðapóstinn sem barst bæjarbúum í morgun. ,,Við höfum orðið vör við þessa umræðu en höfum ekki staðfest dæmi um það. Leikskólanefnd er að vinna að breytingum á innritunarreglum um leikskóla og þar er tekið fram að bæði lögheimili og búseta verði að vera í Garðabæ til að fá leikskólapláss. Þessari breytingu er ætlað að skýra línurnar hvað þetta varðar.”
Mynd: Kampus Production