Upptaktur fyrir tónskáld

Það voru áhugaverðir tónleikar í Hörpu í byrjun mánaðarins þegar lög eftir ung tónskáld voru flutt á uppskerutónleikum Upptaktsins, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna. Í Upptaktinum gefst nemendum í 5. – 10. bekk grunnskóla tækifæri til að senda inn lög og keppa um að komast í tónsmiðju þar sem verkin eru fullunnin af tónskáldum og síðan flutt af atvinnuhljóðfæraleikurum. Tónleikarnir eru hluti af

Barnamenningarhátíð og Kópavogur átti tvo fulltrúa í tónsmiðjunni þetta árið, þau Elvar Sindra Guðmundsson og Ernu Maríu Helgadóttur. Þau eru bæði í Salaskóla og stunda tónlistarnám í Skólahljómsveit Kópavogs.  Elvar Sindri komst með lag í Upptaktinn á síðasta ári og ákvað að senda lag aftur í ár og komst aftur inn. Honum fannst tónlistarupplifunin vera það skemmtilegasta við Upptaktinn og það að vinna með hæfileikaríku fólki að því að fullvinna lagið og fá það svo flutt á tónleikum í Hörpu. Lagið hans „Á krossgötum“ var undir áhrifum íslenskrar þjóðlagatónlistar og bar sterkan keim af álfum og huldufólki.

Erna María átti lagið „Sólblómið“ á tónleikunum og hún samdi það til að sýna þær tilfinningar sem fylgdu því að fá einhverfugreiningu. Lagið er mjög hugljúft og í samvinnu við tónskáldið sitt útsetti hún það fyrir klarínettueinleik með strengjakvartett og í þeirri vinnu breyttist lagið talsvert og fleiri tilfinningar bættust við.
Þau eru sammála um það að það hafi verið mjög skemmtilegt og gefandi að fylgjast með þróun lags frá frumhugmynd í fullmótað tónverk sem síðan var spilað af atvinnuhljóðfæraleikurum. Við hin látum okkur nægja að fylgjast með þessum ungu tónskáldum og hlökkum til að heyra frá þeim í framtíðinni.

Myndirnar tók Anna Fjóla Gísladóttir sem eru af Elvari Sindra og Ernu Maríu. Hópmyndin er af öllum ungu tónskáldunum.

Erna María Helgadóttir. Myndina tók Anna Fjóla Gísladóttir
Elvar Sindri Guðmundsson. Myndina tók Anna Fjóla Gísladóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar