Bæjarstjórn samþykkir að efla tónlistarnám
Á fundi bæjarstjórnar þann 7. apríl 2022 var samþykkt tillaga okkar um að efla tónlistarnám í Garðabæ.
Fræðslu- og menningarsviði er falið að vinna fyrir haustið minnisblað um stöðu tónlistarkennslu í bænum í samráði við hlutaðeigandi stjórnendur skóla og menningarmála.
Húsnæði tónlistarskólans við Kirkjulund
Fyrsti hluti verkefnisins sem nú hefur verið settur í gang er samantekt á húsnæði Tónlistarskóla Garðabæjar ásamt kennslurýmum í grunnskólum bæjarins sem notuð eru til tónlistarkennslu í samvinnu við tónlistarskólann.
Vinna þarf þarfagreiningu varðandi húsnæði tónlistarskólans næstu árin og skoða fýsileika þess að stækka núverandi húsnæði skólans við Kirkjulund. Til eru hugmyndir um slíka stækkun.
Í tónlistarskólanum er einn besti tónleikasalur á höfuðborgarsvæðinu sem tekur um 120 manns í sæti.
Aukið framboð tónlistarnáms
Verkefnið snýst líka um að skoða aðrar leiðir til að auka framboð tónlistarnáms í Garðabæ, til að mynda með samstarfi við fleiri sjálfstætt starfandi aðila sem bjóða upp á tónlistarkennslu.
Mikið og gott samstarf er við Klifið þar sem kennt er á hljóðfæri án þess að nemendur séu í reglulegu tónlistarnámi. Kennsla hjá Klifinu fer fram eftir að hefðbundnu skólastarfi innan dagsins lýkur.
Skoða þarf sérstaklega með hvaða hætti hægt er að efla enn frekar slíka „léttari“ tónlistarkennslu og samstarf bæjarins við aðila sem haft gætu veg og vanda að slíku.
Efnilegt ungt tónlistarfólk í Garðabæ
Við vitum að mikill tónlistaráhugi er meðal ungs fólks í Garðabæ og við eigum fjöldann allan af ungu tónlistarfólki í bænum sem vill læra meira.
Við eigum líka margt öflugt fullorðið tónlistarfólk á hæsta gæðastigi, meðal annars hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við Lyngásinn er svo eitt flottasta upptökustúdíó landsins í eigu Of Monsters and Men.
Þetta allt þurfum við að nýta okkur vel með samtali og aukinni samvinnu.
Þróunarsjóður skapandi greina
Í samþykktri fjárhagsáætlun Garðabæjar 2022 eru 10 milljónir króna settar í nýjan þróunarsjóð skapandi greina sem meðal annars getur nýst til að byggja upp þróunarverkefni varðandi tónlistarmál í bænum.
Slíkt þróunarverkefni gæti stuðlað að aukinni nýsköpun í tónlistarstarfi bæjarbúa.
Markmiðið er að styðja enn frekar við ungt tónlistarfólk í Garðabæ sem er að stíga sín fyrstu spor á tónlistarbrautinni.
Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og
formaður bæjarráðs Garðabæjar
Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og
formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar