Þrá aldanna og von jólanna – Jólahugleiðing Grétars Halldórs

Við höfum undandarin misseri fengið miklar fréttir af átökum og stríðum. Við erum öll löngu orðin meðvituð um stríðið sem geisar í Úkraínu, og nú nýlega höfum við einnig fylgst með alvarlegum árásum og átökum í ísrael og Palestínu.
Þetta þýðir að, nú þegar við minnumst fæðingar Jesúbarnsins á jólum, þá eru átök í einmitt þeim heimshluta þar sem það fæddist. Það er átök í þeim löndum þar sem Jesú fæddist, lifði og starfaði.
Árin og aldirnar áður en Jesú fæddist hafði reyndar einnig verið ok og ófriður í einmitt þessum sama heimshluta. Rómverska heimsveldið hafði þá lagt svæðið undir sig, og andspyrnuhreyfingar á svæðinu gerðu ótt og títt uppreisnir sem voru barðar harkalega niður af rómversku yfirstjórninni með tilheyrandi blóðsúthellingum.
Þrá aldanna
Og fólkið í þeim löndum (sem nú kallast Ísrael og Palestína) beið þess vegna eftir og þráði að Guð myndi senda þeim messías, frelsara. Þau biðu eftir honum sem spádómar Gamla testamentisins fjalla um, eftir honum sem þau trúðu að myndi leysa þau undan okinu, leysa þau loksins undan ófriðnum.
Fólkið vænti og vonaðist eftir frelsara.
Á aðventunni þá tákngerir kristin kirkja þessa bið og þrá eftir fæðingu frelsarans og við syngjum því sálma eins og hinn ástsæla: “ó, kom, ó kom Immanuel, og leys úr ánauð ísrael.”
Hvernig frelsari?
Fólkið í löndunum við Miðjarðarhaf á tímum Jesú var sannarlega undir oki og ánauð. Og þau biðu eftir frelsara sem myndi losa þau undir okinu.
Og vissulega kom frelsarinn, eins og játað er í hinum kristna heimi.
En sá frelsari sem kom var annar en sá sem fólkið hafði vænst og hann leysti undan annars konar oki.
Hann kom ekki til að leysa eingöngu eina þjóð undan oki annarrar. Nei, hans verkefni var stærra og náði lengra og víðara en bara til einnar þjóðar. Hann kom til að leysa allar manneskjur undan því oki, sem er rótarástæða þess að fólk undirokar hvert annað og beitir hvert annað hömlulausu ofbeldi. Hann kom til að leysa mannkyn allt undan oki syndar og sundrungar.
Það er syndin í manneskjunni, það ástand sem hún er í, sem skapar ófrið í huga og hjarta, og sem vekur í framhaldi sundrung og átök milli manna og þjóða.
Von jólanna
Og þegar við kyrjum og syngjum á aðventu: “ó kom ó kom vor Immanuel, og leys úr ánauð ísrael” þá erum við að biðja um þetta, þrá þetta; Að öll syndabönd verði leyst, og að manneskjan finni þann sanna frið sem Guð einn gefur, og að sá innri friður megi síðan gára út um öll lönd, og ófriðaröldur allar lægja.

Við lifum í dimmum og hörðum heimi
með hungur, fátækt og neyð
Þar sem einn er að farast úr ofáti og drykkju
en annar sveltur um leið.
Þar sem einn er þjakaður andlegu böli
en annar ber líkamleg sár.
Og samt hefur lausnin frá þjáning og þraut
verið þekkt í tvöþúsund ár.

En þrátt fyrir mannkynsins mistök og syndir
og myrkvuðu tímabil
og þrátt fyrir allt sem hann þurfti að líða
og þjást hér og finna til
hann bíður samt ennþá með opinn faðm
þar sem alltaf er skjól og hlíf,
og biður um meiri mátt til að gefa
mönnunum eilíft líf.

Í myrkrinu aðventuljósin loga
sem lýsandi himnesk rós.
Ógnþrungnir skammdegisskuggar víkja
við skínandi kertaljós.
Á jörðinni fölskvast hin andlegu efni
og oft er hér þungbær vist.
Þá er sálinni styrkur og hjartanu
huggun að hugsa um Jesú Krist.
Úr “Aðventuljóð” eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson

Grétar Halldór Gunnarsson prestur í Kópavogskirkju

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar